Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Páll Valur til Bjartrar framtíðar
Miðvikudagur 19. desember 2012 kl. 09:36

Páll Valur til Bjartrar framtíðar

Páll Valur Björnsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Grindavík tilkynnti á bæjarstjórnarfundi í gær að hann ætli að láta að störfum sem bæjarfulltrúi um áramót þar sem hann hefur ákveðið að ganga til liðs við stjórnmálaaflið Bjarta framtíð. Páll Valur bókaði eftirfarandi á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi:

„Ég Páll Valur Björnsson tilkynni hér með að ég læt af störfum sem bæjarfulltrúi fyrir Samfylkingarfélag Grindavíkurlistans frá og með 31.desember 2012. Sú ákvörðun helgast af því að ég hef ákveðið að ganga til liðs við stjórnmálaaflið Bjarta framtíð. Vil ég nú þegar að leiðir skilja þakka samstarfsfólki mínu í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir frábært samstarf og ógleymanlegan tíma síðustu tvö og hálft ár, einnig þakka ég starfsmönnum Grindavíkur fyrir gott samstarf. Það er með söknuði og trega sem þessi ákvörðun er tekin þar sem að ég hef haft mikla ánægju af setu minni í bæjarstjórninni og þrátt fyrir að þetta starf hafi verið mjög krefjandi þá hefur það verið umfram allt gífurlega gefandi og lærdómsríkt og hefur uppfyllt allar þær vonir sem ég bar til þess. Ég geng stoltur frá borði og er afskaplega ánægður með að hafa verið hluti af bæjarstjórn sem þurfti að taka stórar og erfiðar ákvarðanir en sem hafa komið í ljós að voru réttar og til hagsbóta fyrir Grindavík og íbúa hennar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Allt frá því að ég hóf að hafa afskipti af pólitík hef ég talað fyrir auknu samstarfi milli flokka og leitast við að reyna leysa þau ágreiningsmál sem óhjákvæmilega koma upp í sem breiðustu sátt. Ég tel að það hafi tekist og sú hugmyndafræði sem ég og minn flokkur lögðum upp með í upphafi hafi náð að skjóta rótum í starfi bæjarstjórnar. Marta Sigurðardóttir varamaður minn mun taka sæti mitt í bæjarstjórn og nýtur hún fulls traust bæði frá mér og eins frá stjórn og baklandi Samfylkingarfélagsins. Ég skil við Samfylkingarfélag Grindavíkurlistans í fullkominni sátt og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Að lokum óska ég bæjarstjórn Grindavíkur gæfu og velgengni og mun ekki liggja á liði mínu og styðja hana til góðra verka hér eftir sem hingað til íbúum Grindavíkur til heilla og hagsældar.“

Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkir beiðni Páls Vals og mun Marta Sigurðardóttir taka sæti hans í bæjarstjórn frá og með næstu áramótum.