Páll Valur í framboði hjá Samfylkingu í Suðurkjördæmi
Páll Valur Björnsson hefur tilkynnt um framboð sitt fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.
„Ég býð mig fram til setu á listanum og vil því biðja þá félaga mína sem telja að ég eigi erindi í efstu sæti listans að senda línu á uppstillingarnefndina með tilnefningu. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að hér þarf að komast á koppinn félagshyggju og jafnaðarstjórn undir forustu Samfylkingarinnar eftir kosningarnar í haust og tel ég að kraftar mínir séu mikilvægir í þeim árangri sem við viljum ná. Ég finn mikinn meðbyr með flokknum, við þurfum að þétta raðirnar og berjast sem ein manneskja í kosningabaráttunni sem framundan er.
Ég hef þetta kjörtímabil setið sem varaþingmaður í Reykjavík-Norður en ákvað að færa mig aftur heim í Suðurkjördæmi. Ég hef búið hér suður með sjó í tæpa fjóra áratugi og þrátt fyrir að eiga sterkar rætur að rekja til Reykjavíkur tel ég að þekking mín og reynsla sem þingmaður í kjördæminu 2013-2016 muni nýtast flokknum mun betur. Suðurkjördæmi er víðfeðmt og þar er svo sannarlega verk að vinna fyrir Samfylkinguna. Ég er til þjónustu reiðubúinn í þá vinnu,“ segir Páll Valur m.a. í tilkynningu.