Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Páll Valur hættur í Bjartri Framtíð
Páll Valur sat á þingi fyrir Bjarta framtíð frá 2013 til 2016.
Þriðjudagur 11. apríl 2017 kl. 11:43

Páll Valur hættur í Bjartri Framtíð

- Ósáttur við þá ákvörðun að „líma“ flokkinn við Viðreisn í stjórnarmyndunarviðræðum

Páll Valur Björnsson, fyrrum þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur sagt sig úr flokknum. Páll sat á þingi fyrir flokkinn kjörtímabilið 2013 til 2016. Í bréfi til flokksmanna segir Páll að hann hafi verið algerlega andsnúinn því að Björt framtíð myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki. „Ég var (eins og allir vita) ekki sáttur við þá ákvörðun að líma Bjarta framtíð við Viðreisn í stjórnarmyndunarviðræðunum; flokk sem er leiddur af fólki sem hefur verið árum saman í hagsmunagæslu fyrir stór-atvinnurekendur. Það var gert án nokkurs samráðs við bakland eða a.m.k. án alls samráðs við þá oddvita flokksins sem ekki náðu kjöri í kosningunum. Það sem hefur gerst eftir þessa stjórnarmyndun hefur ekki dregið úr þessum efasemdum mínum og áhyggjum, nema síður sé,“ segir í bréfinu.

Páll hlaut Barnaréttindaverðlaun Unicef í september síðastliðnum en þau eru veitt þeim þingmanni sem þykir hafa staðið sig best við að verkja athygli á og berjast fyrir réttindum barna. Í bréfinu ritar Páll að rannsóknir sýni að fleiri þúsund börn hér á landi búi við fátækt og fari á mis við margvísleg tækifæri þess vegna. „Þegar Björt framtíð ætlar ekki að styðja frumvarp sem lagt er fram af talsmönnum barna á Alþingi um ritfangakostnað sem er augljóslega afar mikilvægur þáttur í að jafna tækifæri barna til náms og þar með tækifæri þeirra í lífinu öllu, tekur steininn úr.“ Þá nefnir Páll einnig eftirgjöf varðandi breytingar á kvótakerfi, ESB og íslensku krónuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í niðurlagi bréfsins segir að Björt framtíð muni alltaf eiga stað í hjarta Páls.

Eftir að Páll settist á Alþingi fyrir Bjarta framtíð fékk hann sér húðflúr með merki flokksins á upphandlegginn. Nútíminn segir frá því að það verði áfram á sínum stað.