Óvissustig vegna landriss við Þorbjörn
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum
vegna vísbendinga um kvikusöfnun vestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga.
Undanfarna daga hefur landris og aukin jarðskjálftavirkni mælst á Reykjanesskaga og telja jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ mögulegt að um sé að ræða kvikusöfnun vestan við Þorbjörn, þótt ekki sé útilokað að aðrar ástæður geti verið fyrir þessari virkni.
Samhliða hefur Veðurstofa Íslands fært litakóða fyrir flug á gult.
Íbúafundur verður haldinn í íþróttahúsinu Grindavík kl. 16 á morgun, mánudag 27. janúar, þar sem vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun munu gera grein fyrir stöðunni auk fulltrúa frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofan og þær stofnanir sem málið varða hafa aukið samráð og fylgjast með stöðunni.
Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Fylgist með frekari upplýsingum fra almannavörnum, á Facebook
Nánari upplýsingar um jarðhræringar má sjá á www.vedur.is