Óvissan nagandi segir bæjarstjóri Grindavíkur
Nýlokið er samráðsfundi bæjarstjórnar Grindavíkur með björgunarsveitinni Þorbirni, lykilstjórnendum í Grindavík, fulltrúa HS Orku og fleium í björgunarstöðinni í Grindavík. Þar var farið yfir stöðu mála eins og hún er núna og hver næstu skref verða.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, sagði í hádegisfréttum RÚV að til staðar væri þétt og mikið net viðbragðsaðila eins og lögreglu, björgunarsveita og almannavarna.
Fannar sagði að það væri nauðsynlegt að bæjarbúar í Grindavík haldi utan um hvert annað. Óvissan væri nagandi en upplýsingar skipti mestu máli. Von væri á færustu mönnum landisns í þessum málum á íbúafund í Grindavík í dag síðdegis til að upplýsa bæjarbúa en fundinum verður einnig streymt, m.a. á fésbókarsíðu Víkurfrétta.