Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óvissa um stuðning ríksins, segir bæjarstjóri
Þriðjudagur 30. júní 2015 kl. 16:10

Óvissa um stuðning ríksins, segir bæjarstjóri

Vinna við gerð fjárhagsáætlunar 2016 hafin hjá Reykjanesbæ.

Þegar þetta er skrifað, í lok júní 2015, má segja að sumarið sé komið. Veðrið hefur leikið við okkur síðustu daga og hitinn hvað eftir annað farið yfir 15 stig. Þegar það gerist lifnar allt við, gróðurinn tekur vaxtarsprett, áhyggjur fólks minnka, fólk slær á létta strengi og klæðir sig öðruvísi, verður bjartsýnt, glatt og skrafhreifið og tilveran tekur á sig annan blæ.

Þrír fjórðu hlutar Sóknarinnar komnir í gang

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um leið og bjartsýni eykst verður lífið auðveldara. Þannig er það líka hjá okkur sem vinnum að endurreisn Reykjanesbæjar. Síðast liðið haust kynntum við áætlun sem fékk nafnið Sóknin og allir bæjarfulltrúar og langflestir starfsmenn hafa sameinast um. Sóknin samanstendur af 4 meginþáttum; 1. Að ná fram jákvæðri framlegð úr rekstri bæjarsjóðs með því að auka tekjur og draga saman kostnað 2. Að halda fjáfestingum og nýframkvæmdum í lágmarki 3. Að gera B-hluta fyrirtæki í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar rekstrarlega sjálfbær 4. Að endursemja við lánadrottna um lækkun skulda en þeim skuldar A-hluti bæjarsjóðs um 25 milljarða króna og samstæðan þ.e. bæði A-hlutinn og B-huta fyrirtæki og stofnanir alls um 44 milljarða.

Þegar þetta er ritað má segja að ¾ hlutar Sóknarinnar séu komnir í gang þ.e. liðir 1, 2 og 3 hér að framan. Fjórði liðurinn; að endursemja við lánadrottna um niðurfærslu skulda, sem jafnframt er lang mikilvægasti einstaki hluti Sóknarinnar en um leið sá sem við höfum minnst áhrif á, hefur hins vegar ekki gengið eins greiðlega og vonast var eftir. Ástæður þess eru margvíslegar. Nú síðast m.a. þau áform ríksins að aflétta gjaldeyrishöftum með samkomulagi eða stöðugleikaskatti á þrotabú föllnu bankanna en stærsti einstaki lánadrottinn Reykjanesbæjar er einmitt þrotabú Glitnis í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. Þessi mál eru gríðarlega flókin og verða ekki skýrð til hlítar í stuttri grein eins og þessari.

Óvissa um stuðning ríkisins

Í langan tíma hafa bæjaryfirvöld reynt að fá stuðning ríkisins við uppbyggingu í Helguvík. Um tíma var vilji til þess að setja á sérlög, líkt og gert var vegna uppbyggingar á Bakka við Húsavík, sem hefði getað tryggt Reykjanesbæ talsverðan stuðning í formi víkjandi láns. Við nánari skoðun var sú leið hins vegar ekki talin fær því um leið hefði skuldsetning Reykjaneshafnar aukist. Það má ekki gerast. Eftir að hafnarlögum var hins vegar breytt sl. vetur, og heimild gefin fyrir allt að 60% óendurkræfum stuðningi ríkisins við uppbyggingu hafna, var ákveðið að reyna að fara þá leið. Stuðningur ríkisins hefur hins vegar látið á sér standa og nú þegar verið er að loka fjárlagafrumvarpi næsta árs er algjörlega óvíst hvort uppbygging okkar í Helguvík muni fá slíkan stuðning þrátt fyrir að heimild sé fyrir því í lögum. Margar ferðir, samtöl, símtöl og fundir með þingmönnum, nefndum, ráðum og ráðherrum, þar sem spilin hafa verið lögð á borðið og málin skýrð undanbragðalaust, hafa því enn ekki skilað árangri. Við ætlum samt að vera bjartsýn og trúum því að þingmenn okkar og ráðherrar skilji þá stöðu sem Reykjanesbær er í og leggi sig fram um að nota þær löglegu leiðir sem til eru til að hjálpa okkur út úr þessari erfiðu stöðu.

Vinna við gerð fjárhagsáætlunar 2016 hafin

Að lokum er gaman að segja frá því að bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti einróma í síðustu viku nýjar verklagsreglur fyrir fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagsins. Í þeim verklagsreglum er m.a. gert ráð fyrir að vinna við gerð fjárhagsáætlunar hefjist fyrr og taki lengri tíma en áður. Með því er ætlunin að vanda enn betur til verka með það að markmiði að bæta áætlunargerðina til muna. Um leið fer vinnan að líkjast meir vinnu ríkisinis við gerð fjárlaga næsta árs en eins og fram kom hér að framan er þeirri vinnu að ljúka þessa dagana. Við ætlum ekki að ganga svo langt en stefnum að því að bæta verklagið smátt og smátt bæði með þessum nýju verklagsreglum sem og námskeiðum og þjálfun ýmis konar fyrir stjórnendur Reykjanesbæjar.

Að lokum

Að lokum vona ég að sumarið verði okkur öllum ánægjulegt og hvet íbúa Reykjanesbæjar sem og aðra að hafa ekki áhyggjur af þessum málum. Það hefur aldrei hjálpað nokkrum manni að hafa áhyggjur. Á meðan skulum við, sem vinnum við að þoka þessum málum áfram, leggja okkur fram við að ná árangri í að endurskipuleggja reksturinn; Reykjanesbæ og íbúum hans til heilla.

Kjartan Már Kjartansson

bæjarstjóri