Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Óvissa um mælingar setur málið upp í loft
Fimmtudagur 30. mars 2017 kl. 12:11

Óvissa um mælingar setur málið upp í loft

- Umhverfisstofnun á fundi bæjarráðs í morgun

Fulltrúar Umhverfisstofnunar og fulltrúi frá Embætti landlæknis komu á fund bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun til að ræða mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.

Líkt og greint var frá á vef Víkurfrétta í morgun hafa Orkurannsóknir tilkynnt Umhverfisstofnun um að mistök hafi verið gerð við mælingar á mengun frá kísilverksmiðjunni. Í bókun bæjarráðs segir að fréttir um misvísandi niðurstöður mælinga krefjist þess að vinnubrögð verði endurskoðuð þannig að íbúar geti treyst þeim upplýsingum sem fram eru settar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Nýrra upplýsinga af réttmæti niðurstöðu mælinga er að vænta í dag eða á næstu dögum og segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, þá verða hægt að stíga næstu skref í málinu en íbúar í Reykjanesbæ hafa fundið fyrir reyk- og lyktarmengun frá kísilverksmiðjunni undanfarna mánuði. Þá var greint frá því á dögunum að styrkur arsens í andrúmslofti væri mun meiri en gert var ráð fyrir í umhvefismati. „Óvissa með mælingar setur málið allt upp í loft. Bæjarráð hefur miklar áhyggjur af stöðu mála í Helguvík en ber fullt traust til Umhverfisstofnunar og leggur áherslu á að unnið verði að endurbótum á verksmiðjunni þannig að loftgæði verði ekki skert til lengri tíma,“ segir hann.

Á fundinum í morgun gerðu sérfræðingarnir grein fyrir niðurstöðu fundar samstarfsnefndar um sóttvarnir sem haldinn var í vikunni. Niðurstaða nefndarinnar var sú að styrkur arsens í nágrenni verksmiðjunnar sé langt undir þeim mörkum sem talin eru valda alvarlegum áhrifum.

Verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar mun fara fram á næstunni og upplýstu fulltrúar Umhverfisstofnunar bæjarráð um að verksmiðjan þyrfti að vera í gangi á meðan úttektin fari fram en Friðjón lýsti þeirri skoðun sinni fyrr í vikunni að hann teldi farsælast að stöðva reksturinn þar til tækist að minnka mengun og verksmiðjan uppfylli ákvæði starfsleyfis.

Mælistöð Orkurannsókna við Helguvík. VF-mynd/hilmarbragi