Óvissa um mælingar setur málið upp í loft
- Umhverfisstofnun á fundi bæjarráðs í morgun
Fulltrúar Umhverfisstofnunar og fulltrúi frá Embætti landlæknis komu á fund bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun til að ræða mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.
Líkt og greint var frá á vef Víkurfrétta í morgun hafa Orkurannsóknir tilkynnt Umhverfisstofnun um að mistök hafi verið gerð við mælingar á mengun frá kísilverksmiðjunni. Í bókun bæjarráðs segir að fréttir um misvísandi niðurstöður mælinga krefjist þess að vinnubrögð verði endurskoðuð þannig að íbúar geti treyst þeim upplýsingum sem fram eru settar.
Á fundinum í morgun gerðu sérfræðingarnir grein fyrir niðurstöðu fundar samstarfsnefndar um sóttvarnir sem haldinn var í vikunni. Niðurstaða nefndarinnar var sú að styrkur arsens í nágrenni verksmiðjunnar sé langt undir þeim mörkum sem talin eru valda alvarlegum áhrifum.
Verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar mun fara fram á næstunni og upplýstu fulltrúar Umhverfisstofnunar bæjarráð um að verksmiðjan þyrfti að vera í gangi á meðan úttektin fari fram en Friðjón lýsti þeirri skoðun sinni fyrr í vikunni að hann teldi farsælast að stöðva reksturinn þar til tækist að minnka mengun og verksmiðjan uppfylli ákvæði starfsleyfis.
Mælistöð Orkurannsókna við Helguvík. VF-mynd/hilmarbragi