Óvissa um Helguvík bregðist lán til OR
Áætlanir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um virkjanaframkvæmdir eru í uppnámi, fáist ekki þrjátíu milljarða króna lán frá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) sem vilyrði er fyrir. Afgreiðslu lánsins var hafnað í júlí vegna óstöðugleika í efnahagslífinu.
Fáist lánið ekki mun það valda því að fjármögnun annars staðar frá verði erfið, sem skapi óvissu um framhaldið. „Við eigum því mikið undir því að fá þessa fyrirgreiðslu," segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við visi.is sem greinir frá þessu.
„Orkuveitan skiptir miklu máli í Helguvíkurverkefninu en fjármögnunarmálin eru í óvissu. Þetta er keðja stórra verkefna sem byggja hvert á öðru," er haft eftir Kristjáni Skarphéðinssyni, ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins.
Sjá frétt visi.is hér
Orkan frá virkjununum er ætluð álverinu í Helguvík. Fjármögnun þeirrar framkvæmdar er ólokið. „Orkuveitan gerði ráð fyrir því að fjármögnun við framkvæmdina í Helguvík yrði lokið. Við erum því ekki með skuldbindandi orkusamning í höndunum. Þeir eru ekki tilbúnir að gefa okkur grænt ljós á að þeir kaupi af okkur orkuna fyrr en þeir hafa lokið sinni fjármögnun. Við eigum ekki von á svörum frá Norðuráli fyrr en á fyrri hluta næsta árs," segir Hjörleifur Kvaran í annarri frétt um málið.
Sjá visi.is hér