Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Óvissa ríkir um rekstrarhæfi þrátt fyrir áframhaldandi sölu eigna
Miðvikudagur 16. maí 2012 kl. 13:21

Óvissa ríkir um rekstrarhæfi þrátt fyrir áframhaldandi sölu eigna


Ársreikningur Reykjanesbæjar var til annarrar umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær þriðjudaginn 15. maí. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar þau Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson bókuðu svo um ársreikinginn:

„Samantekt á helstu niðurstöðum ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir árið 2011opinberar afleiðingar óskynsamrar fjármálastjórnar meirihluta sjálfstæðismanna á undanförnum árum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljóst er að stóraukin skuldsetning Reykjanesbæjar síðustu kjörtímabilin hefur bundið sveitarfélagið skuldabagga sem mun hefta framfarir og rekstur til langs tíma. Árin fyrir hrun gerði meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ óraunhæfar spár um fjölgun íbúa og atvinnutækifæra og fjárfestu of mikið í skipulagningu og byggingu nýrra hverfa. Íbúaspár meirihlutans voru mjög úr takti við spár hagstofunnar en til þess að spár þeirra gætu gengið eftir hefði fólki á landsbyggðinni þurft að fækka umtalsvert.

Skuldirnar vegna áætlunargerðar sjálfstæðismanna hvíla nú þungt á bæjarsjóði sem og b-hluta fyrirtækjum bæjarins og ljóst er að bæta þarf eiginfjárstöðu margra dótturfyrirtækja Reykjanesbæjar eins og t.d. Fasteigna Reykjanesbæjar og Reykjaneshafna en taprekstur hefur verið viðvarandi á báðum fyrirtækjum frá árinu 2002.

Samkvæmt rekstrarreikningi Fasteigna Reykjanesbæjar nam tap ársins 173 milljónum og er uppsafnaður halli 1.172 milljónir króna. Ítrekuðum ábendingum endurskoðenda um að félagið fari í fjárhagslega endurskipulagningu hefur ekki verið sinnt.

Tap Reykjaneshafnar á síðasta ári nam 557 milljónum og eigið fé neikvætt sem nemur 107% sem gerir um 3.231 milljón króna og eru heildarskuldir nú um 6.5 milljarður og hafa skuldir rúmlega sexfaldast frá árinu 2002.

Á síðustu árum hefur verið mikill samdráttur í rekstri Reykjanesbæjar, hagrætt hefur verið eins og mögulegt er, eignir seldar, laun og starfshlutfall starfsmanna skert. Aðgerðirnar hafa skilað árangri í rekstri sveitarfélagsins en á sama tíma hefur álag aukist á starfsfólk.

Rekstur bæjarsjóðs hefur verið mjög erfiður þrátt fyrir sölu eigna en á síðasta ári var hagnaður af eignasölu 960 milljónir. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs án eignasölu var því taprekstur upp á 890 milljónir og samstæðu upp á 1.700 milljónir.

Meirihluti sjálfstæðismanna hefur oft haft á orði að nauðsynlegt sé að eyða peningum til að skapa verðmæti og bæta hag íbúa. Það má vel vera rétt ef varúð er höfð að leiðarljósi og ekki sé rasað um ráð fram. Því miður hefur sjálfstæðismönnum ekki tekist vel til í þetta sinn og ber ársreikningurinn 2011 þess merki.

Það má kannski gleðjast yfir því að bæjarsjóður eigi eignir til að selja til að kosta taprekstur sjálfstæðismanna en öllum ætti að vera ljóst að gengdarlaus eignasala gengur ekki til lengdar.

Sérstaklega ber að gagnrýna áróður sjálfstæðismanna um að rekstur hafi gengið vel á síðasta ári og ekki síst þann málatilbúning sem hafður hefur veri frammi um að best reknu sveitarfélögin séu Garðabær og Reykjanesbær. Það á kannski við um Garðabæ en alls ekki um Reykjanesbæ. Þessi málatilbúningur er með ólíkindum og til skammar.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar taka undir ábendingar endurskoðenda bæjarins vegna ársreiknings Reykjanesbæjar varðandi fjárhagsstöðu og lausafjárvanda bæjarsjóðs.

Mikilvægt er að meirihluti Sjálfstæðismanna taki sér nú rögg og taki mark á athugasemdum endurskoðenda og minnihluta svo koma megi í veg fyrir skipbrot bæjarsjóðs.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru boðnir og búnir til þeirrar vinnu sem fyrr“.