Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óvissa með stjórnsýsluhús á Keflavíkurflugvelli
Föstudagur 16. júlí 2004 kl. 15:32

Óvissa með stjórnsýsluhús á Keflavíkurflugvelli

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um byggingu stjórnsýsluhúss á Keflavíkurflugvelli. Málið hefur síðustu mánuði verið til umræðu innan utanríkis- og fjármálaráðuneytis en utanríkisráðuneytið hefur forræði yfir málinu. Í stjórnsýsluhúsinu verða sýslumannsembættið á Keflavíkurstjórn og embætti flugvallarstjóra en sýslumannsembættið hefur átt við verulegan húsnæðisvanda að stríða síðustu misseri. Komið hefur verið upp gámum við lögreglustöðina að Grænás sem hýsa skrifstofur embættisins. Áætlaður byggingakostnaður stjórnsýsluhússins er á bilinu 800 til 1000 milljónir króna.

Hjálmar Árnason alþingismaður segir að unnið hafi verði lengi og vel að málinu en að fjárheimild hafi ekki fengist. „Það er búið að undirvinna málið að öllu leyti. Fjármálaráðuneytið hefur fallist á forsendurnar fyrir stjórnsýsluhúsinu, en einungis stendur eftir að taka ákvörðun um að fara í framkvæmdir og ég trúi að það muni gerast við næstu fjárlagagerð.“
Aðspurður sagði Hjálmar þörfina á stjórnsýsluhúsinu vera til staðar; flugumferð sé vaxandi og mikil þrengsli og aðstöðuleysi sé hjá lögreglumönnum hjá embættinu. „Það er auðvitað óþolandi hvað búið er að draga málið og að fjárheimildir fáist ekki, eftir alla þá mjög góðu faglegu vinnu sem búið er að vinna af hálfu sýslumannsembættisins. Það er allt sem mælir með því að húsið verði byggt og ég sé engin rök gegn því,“ sagði Hjálmar í samtali við Víkurfréttir.

Tölvumynd af fyrirhuguðu stjórnsýsluhúsi á Keflavíkurflugvelli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024