Óvissa með komu bóluefnis vegna svínaflensu til Suðurnesja
Vegna mikillar óvissu um komu bóluefnis til landsins verður ekki hægt að bóka í svínaflensubólusetningu á Suðurnesjum í bili. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mun auglýsa þegar byrjað verður að bóka að nýju í bólusetningar.
„Reynt verður að fremsta megni að bólusetja þá sem hafa nú þegar pantað en það gæti þurft að flytja fólk til um daga en það fer algerlega eftir því hvort bóluefni berst til okkar á réttum tíma,“ segir Ingibjörg Steindórsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslusviðs Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, í samtali við Víkurfréttir.
Fólk er hvatt til að fygljast vel með á hss.is og vf.is, þar sem tilkynnt verður nánar um bólusetningar.