Otti Rafn formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Grindvíkingurinn Otti Rafn Sigmarsson var kjörinn formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar á landsþingi samtakanna um nýliðna helgi. Otti var áður varaformaður samtakanna.
„Ég er hrærður yfir stuðningnum og öllum kveðjunum síðustu daga og mun það heldur betur veita mér byr í komandi verkefni. Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu, ný stjórn hefur verið kjörin og mikið af nýju fólki tekið við stjórnartaumunum.
Ég mun ekki bregðast ykkur, því lofa ég. Takk fyrir allt, takk fyrir mig,“ skrifar Otti Rafn á fésbókina.
Otti og félagar hans í Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík hafa verið í eldlínunni síðustu misseri. Nú síðast í eldgosinu í Fagradalsfjalli og þar áður þegar jarðskjálftar gerðu Grindvíkingum lífið leitt í bland við óvissustig almannavarna vegna landriss við fjallið Þorbjörn.