Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óttast lyktarmengun og að eignir rýrni í verði
Nesbú á Vatnsleysuströnd.
Föstudagur 27. nóvember 2015 kl. 11:38

Óttast lyktarmengun og að eignir rýrni í verði

Mótmæla stækkun alifuglabús Nesbús á Vatnsleysuströnd

Tíu ábúendur og landeigendur í nágrenni Nesbús mótmæla í bréfi til bæjaryfirvalda í Vogum fyrirhuguðum framkvæmdum við stækkun búsins. Því er haldið fram í bréfinu til umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga að stækkunin muni hafa margvísleg neikvæð áhrif á búsetuskilyrði svæðisins. Þar segir að engin trygging sé fyrir því að með stækkuninni aukist ekki fuglafjöldi á búinu, lyktarmengun muni þar með aukast. Vegna lyktar- og sjónmengunar rýrni verðgildi eigna og dragi úr möguleikum á uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þá dragi úr áhuga fólks á búsetu á svæðinu.

Sveitarfélagið Vogar auglýsti á dögunum deiliskipulagstillögu fyrir alifugalbúið Nesbú á Vatnsleysuströnd. Tvær athugasemdir bárust, sú sem greint er frá hér að framan og einnig í bréfi frá eigendum Narfakots. Í athugasemd þeirra er mótmælt auglýstri deiliskipulagstillögu á ætlaðri lóð Nesbús. Er því haldið fram að lögformleg skipti hafi ekki farið fram á landinu og því ekki heimilt að deiliskipuleggja svæðið.

Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsnefndar á athugasemd tíu ábúenda og landeigenda í nágrenni Nesbús segir að samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins sé verið að bæta húsakost búsins til að mæta kröfum um velferð dýra skv. nýsettum lögum þar um og að fuglum verði ekki fjölgað á búinu frá því sem nú er. Eftirlit með starfsemi búsins sé í höndum opinberra eftirlitsaðila sem m.a. fylgjast með fuglafjölda og meðferð úrgangs og er vísað til þess eftirlits varðandi þau atriði. Skv. gildandi aðalskipulagi er lóðin á iðnaðarsvæði og umhverfi er skilgreint landbúnaðarsvæði, engu sé verið að breyta varðandi þá landnotkun. Deiliskipulagið eitt og sér ætti því ekki að breyta neinu í þeim efnum sem snúa að búsetuskilyrðum fólks s.s. lyktar- og sjónmengun, rýrara verðgildi eigna, minni möguleikum á uppbyggingu í ferðaþjónustu eða að dragi úr áhuga fólks á búsetu á svæðinu.

Afgreiðsla nefndarinnar á athugasemd frá eigendum Narfakots er sú að samkvæmt landeignaskrá sem er hluti af fasteignaskrá og m.a. hefur tilvísun í afmörkun og eignarhald í samræmi við þinglýstar heimildir sé Nesbúegg ehf. þinglýstur eigandi lóðarinnar. Það er sú opinbera skrá sem umhverfis- og skipulagsnefnd gengur út frá og telur hún það ekki hlutverk nefndarinnar að skera úr ágreiningi varðandi landamerki.

Umhverfis- og skipulagsnefnd hefur því lagt til við bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga að deiliskipulagstillagan verði samþykkt óbreytt frá auglýsingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024