Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ótryggður málningarverktaki olli milljónatjóni í Keflavík
Séð yfir það svæði þar sem tjónið varð mest. Klampenborg er stóra hvíta húsið fremst á myndinni og í baksýn má m.a. sjá ráðhús Reykjanesbæjar þar sem bílar urðu fyrir tjóni. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 20. september 2018 kl. 09:40

Ótryggður málningarverktaki olli milljónatjóni í Keflavík

Milljónatjón varð í Keflavík sl. fimmtudag þegar málningarverktaki sprautaði olíumálningu yfir tugi bifreiða. Verktakinn vann við að mála þak á húsinu Klampenborg við Túngötu í Keflavík. Málningarsprauta var notuð við verkið en á meðan framkvæmdinni stóð var stíf norðanátt en á Keflavíkurflugvelli mældist allt að 11 m/s vindur.

Í lögregluskýrslu sem gerð hefur verið um atvikið kemur fram að alls hafi 41 bifreið orðið fyrir málningarúða en hvít olíumálning var notuð til verksins. Flestar stóðu bifreiðarnar við Aðalgötu en einnig við Túngötu, Vallargötu og jafnvel á Íshússtíg. Klampenborg er há bygging við Túngötu og þegar þakið var sprautað síðasta fimmtudag írðist málningin yfir stórt svæði. Þannig varð t.a.m. tjón á fjölmörgum bílum sem stóðu á bílastæði við ráðhús Reykjanesbæjar við Tjarnargötu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bíleigendur hafa síðustu daga verið að setja sig í samband við tryggingafélög til að kanna réttarstöðu sína vegna tjóns. Verktakinn var ekki tryggður fyrir tjóninu sem hann olli og því sitja bíleigendur uppi með skaðann. Massa þarf lakk bílanna en slík meðferð getur kostað allt að 100 þúsund krónum og því innan sjálfsábyrgðar tryggingataka.

Hjá einu tryggingafélagi sem Víkurfréttir ræddu við kom fram að þeir sem urðu fyrir tjóni eru örugglega mun fleiri en kemur fram í tilkynningum til lögreglu. Fólk hafi leitað beint til tryggingafélags síns án þess að tilkynna tjónið til lögreglu.

Íbúi við Aðalgötu sem varð fyrir tjóni sagðist undrast á því að verktaki geti starfað án þess að hafa tryggingar sem bæta t.d. það tjón sem raun varð á.