Ótrúlegur subbuskapur í Háabjalla
Hvað fólkinu gekk til sem nýlega hafði viðkomu í Háabjalla hér á Suðurnesjum, er erfitt að ímynda sér, annað en að þar hafa verið á ferð subbur og sóðar sem ekki kunna snefil af umgengni við náttúruna.
Eins og sést á meðfylgjandi myndum sem útivistarfólk tók í gær, skírdag, og sendi til okkar á Víkurfréttum, þá er umgengni um svæðið á þeim nótum að mikil skömm er af. Þarna hefur verið haldin mikil veisla í mat og drykk.
Viðlegubúnaður ýmiskonar er á víð og dreif um svæðið, gasgrill í skógarrjóðri sem í dag er mjög óaðlaðandi. Áfengisumbúðir um allar jarðir og matarleyfar. Meira að segja hefur verið skilið eftir kjötmeti á svæðinu sem subbugestirnir hafa ekki haft fyrir því að grilla.
Þá er öxi á staðnum sem bendir til þess að stunda hafi átt skógarhögg á svæðinu.
Hafi verið um lautarferð ungmenna að ræða er ástæða til að foreldrar hafi tal af sínu fólki, sérstaklega ef það kannast við eitthvað af þeim munum er sjást á meðfylgjandi myndum.
Vonandi hafa þeir eða þau sem gengu svona um Háabjalla manndóm í sér til að mæta aftur á svæðið og taka saman ruslið og óþverran, sem ætla má að hafi verið skilinn eftir í dómgreinarleysi áfengisdrykkju, en umbúðir af áfengi benda til þess að drukkið hafi verið úr hófi og eitthvað meira en einn léttur með grillsteikinni.
Hér með er skorað á sóðana að taka saman eftir sig ruslið og koma því til eyðingar hjá Kölku eða koma því á næsta gámasvæði sem tekur við rusli sem þessu. Það kostar ekki neitt og samviskan verður örugglega betri á eftir.
Lúið gasgrill og gaskútur á bekk í skógarrjóðrinu. Grillsteik í pakka á borðinu.
Bjórflöskur, dósir og Breezer í bland við matarleyfar og annað rusl.
Útilegustólar uppi á borðum og liggjandi í jörðinni.
Voru þetta skógarhöggsmenn á ferð. Eitthvað hefur þessi gengið úr skaftinu.