Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 24. nóvember 1999 kl. 21:33

ÓTRÚLEGT ATVIK VIÐ EYÐIBÝLIÐ BÆJARSKER Í SANDGERÐI: GASSPRENGING Í BÍL FJÖGURRA UNGMENNA

Fjögur ungmenni á Suðurnesjum á aldrinum 15 til 17 ára, slösuðust þegar gassprenging varð í fólksbifreið þeirra á sunnudagskvöld. Bílstjórinn sem var einn hinna slösuðu ók þeim á sjúkrahús og þurfti eitt þeirra að fara á gjörgæsludeild. Bifreiðin er ónýt eftir sprenginguna. Lögreglan fékk tilkynningu frá sjúkrahúsinu í Keflavík rétt fyrir klukkan tíu á sunnudagskvöld um að fjögur ungmenni, tveir piltar og tvær stúlkur á aldrinum 15 til 17 ára hefðu komið að sjálfsdáðum til aðhlynningar eftir að öflug gassprenging hafi orðið í bíl þeirra. Krakkarnir höfðu verið við eyðibýlið Bæjarsker í Sandgerði þegar sprengingin varð. Í bílnum höfðu þau 11 kílóa gaskút sem þau höfðu hleypt gasi úr af ástæðum sem ekki er vitað um - og þegar önnur stúlknanna kveikti í sígarettu varð gífurlega öflug sprenging enda andrúmsloftið í bílnum orðið gasmettað. Við sprenginguna brotnuðu tvær rúður, framrúða sprakk, afturhleri rifnaði upp sem og hluti yfirbyggingar bifreiðarinnar. Þá sviðnaði og brann margt í bílnum, m.a. í skotti og í klæðningu hans. Þá er yfirbygging bílsins öll teygð og útblásin eftir sprenginguna. Að sögn lögreglunnar í Keflavík er rannsókn málsins varla hafin þar sem þrjú ungmennanna eru enn á sjúkrahúsi. Bílstjórinn fékk að fara heim á mánudagskvöld en hann þótti sleppa best í óhappinu. Öll ungmennin hlutu mismikil brunasár auk annarra áverka. Bílstjórinn ók bifreiðinni sem er af gerðinni Toyota Corolla frá slysstað í Sandgerði til Keflavíkur strax eftir óhappið en það er um tíu mínútna akstur. Þaðan voru þau flutt með sjúkrabifreið á Sjúkrahús Reykjavíkur. Aðspurður um tildrög slyssins og hvað krakkarnir hafi verið að gera með gaskút inn í bílnum sagði Þórir Maronsson, yfirlögregluþjónn ekki geta sagt neitt um á þessu stigi málsins þar sem rannsókn væri á frumstigi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024