Ótrúleg umferðarmenning í skjóli myrkurs!
Ótrúleg umferðarmenning á sér stað í skjóli myrkurs við nýtt hringtorg sem tekið hefur verið í notkun þar sem Njarðarbraut, Bolafótur og Sjávargata mætast í Njarðvík. Víkurfréttir gerðu litla umferðarkönnun við torgið nú í kvöld.
Á hálfri klukkustund milli kl. 22:00 og 22:30 brutu 37 ökumenn almennar reglur sem gilda um akstur í hringtorgum. Allir áttu það sameiginlegt að vera að aka Njarðarbraut og fóru þvert yfir torgið í stað þess að aka eftir yfirborðsmerkingum.
Nýja hringtorgið er nokkuð frábrugðið öðrum hringtorgum þar sem upphækkaður kantur markar útlínur torgsins en torgið er mjög rúmt til að auðvelda stórum flutningabílum að komast að og frá hafnarsvæðinu við Njarðvíkurhöfn.
Hver bíllinn á eftir öðrum ók þvert yfir torgið. Aðrir óku um torgið eins og lög gera ráð fyrir en gátu átt það á hættu að fá næsta bíl á eftir aftan á sig þegar honum var ekið beint yfir en ekki eftir merkingum. Í einu tilviki í kvöld munaði litlu að árekstur yrði.
Það er ljóst að þarna á sér stað algjört virðingarleysi í umferðinni, sem virðist vera stundað í skjóli myrkurs, en lýsingu er ábótavant við torgið.
Hér með er ábendingu komið á framfæri við bæjaryfirvöld að bæta lýsingu á torginu og þeim boðum komið til lögreglu að þarna eru góðir tekjumöguleikar fyrir ríkissjóð og auðvelt að sekta marga á skömmum tíma og ná þar með í fjármagn til aukinnar löggæslu og eftirlits í umferðinni. Ekki veitir af á þeim degi sem við segum: NÚ SEGJUM VIÐ STOPP!
Mynd: Umrætt hringtorg.