ÓTRÚLEG RAUNASAGA LEIGUSALA Í INNRI-NJARÐVÍK:
Ítrekað hótað lífláti„Hjón með 3 börn óska eftir 3-4 herb. íbúð eða einbýlishúsi til leigu strax á Suðurnesjum. Reglusemi og skilvísum greiðslum heitið. Uppl í síma xxx-xxxx eða xxx-xxxx. Róbert. Allt að 3 mán. fyrirfram ef óskað er.“ Þessi auglýsing birtist í VF í lok mars á þessu ári.Martröðin er hafin!Guðmundur Georg Jónsson, 24 ára Njarðvíkingur, svaraði auglýsingunni. „Ég var nýlega skilinn við konuna mína, Hafdísi Kjartansdóttur, og hugðist leigja út tveggja hæða hús sem við eigum í Háseylunni í Innri Njarðvík. Í húsinu eru tvær íbúðir og efri hæðin gat losnað strax. Þegar ég sá auglýsinguna í Víkurfréttum ákvað ég að hringja í fólkið, enda hljómaði auglýsingin vel. Ég ræddi við manninn sem var skrifaður fyrir auglýsingunni. Hann kom vel fyrir í síma og einnig þegar ég hitti þau fyrst í Innri Njarðvík. Þau höfðu verið að leigja í Garðinum en sögðust vera á götunni. Róbert kynnti sig sem byggingaverktaka í Reykjavík og peningar væru ekki vandamálið. Raunin var önnur og hann reyndist vera 70% öryrki. Ég lét hann hafa lyklana strax að íbúðinni svo þau gætu byrjað að flytja inn, enda fólkið á götunni. Okkur varð síðan að samkomulagi að ég færi og útvegaði tilheyrandi pappíra, þ.e. húsaleigusamning og tryggingavíxla“, sagði Guðmundur Georg í samtali við VF. Raunasaga hans er ótrúleg og þegar her er komið við sögu er hún rétt að byrja.Ónothæfur pappír og á svörtum lista„Róbert var fljótur að flytja inn með konuna og börnin. Eftir að hann var fluttur inn breyttist viðhorf hans fljótt til mín. Hann lagði þunga áherslu á að fá húsaleigusamning í hendurnar sem ég fyllti út í vikunni fyrir páska á samt tryggingarvíxlum. Ég komst með víxlana í banka fyrsta virka dag eftir páska og þá kom í ljós að víxillinn var ónothæfur pappír og öll nöfnin á honum voru ekki tekin gild í bankanum. Þetta kom mér á óvart - hvernig gat staðið á því að byggingaverktaki í Reykjavík væri á „svörtum lista“ með allt sitt fólk. Ég ákvað því að fara og tala við manninn.Þegar ég mæti á svæðið kallaði aðili úr hverfinu til mín og bað mig að tala við sig. Viðkomandi spyr hvort ég þekki fólkið. Ég segi það ekki vera. Viðkomandi aðili segir mér þá að fara varlega því hann hafi heyrt ljótar sögur. Mér brá við þetta en fer og banka uppá og segist muni koma með leigusamninginn á morgun þar sem ég þurfi að útvega votta.Daginn eftir hringir hann snemma um morguninn og Hafdís svarar. Róbert sagðist verða að fá leigusamninginn strax. Hún sagði samninginn vera á leiðinni en hann var öskuillur og skellti á.Lögregan ákallaði guð!Ég fór á lögreglustöðina í Keflavík til að leita mér upplýsinga um fólkið en þar var í fyrstu lítið að hafa. Þegar ég sagði þeim hvaða fólki ég væri að leigja húsið sögðu þeir „Guð minn almáttugur. Byrjaður bara strax að reyna að koma þessu fólki út“.Ég sagðist ekki vilja leigja fólkinu húsið og vildi að það færi út. Maðurinn hafði þá í hótunum og sagði „Nú er ég með völdin“. Konan hans kom þá fram og flaggaði ógilda leigusamningnum framan í mig og sagði mig ekkert geta gert, þar sem þau væru með leigusamning. Ég var orðinn hálffúll og slengdi hendinni til konunnar og náði leigusamningnum og gekk síðan í burtu frá húsinu. Ég vissi síðan ekki fyrr en maðurinn stökk aftan á mig og upphófust átök þar sem Róbert tekur mig hálstaki og reynir að rífa af mér samninginn en ég reyni að rífa hann á meðan. Síðan reynir hann að bera mig inn um útidyrnar en mér tókst að grípa í hurðarkarminn og toga mig út. Svo skellir hann bara á mig hurðinni. Ég banka strax aftur og ég heyri í honum við dyrnar. Þá er hann að hringja á lögregluna og segir henni að ég sé árásarmaðurinn.Ég hafði samband við lögregluna en ákvað að kæra ekki því þá væri kannski líklegra að ég losnaði við fólkið. Hins vegar fór ég á heilsugæslustöðina og fékk áverkavorrorð, enda aumur í hálsinum eftir aðfarirnar“.Guðmundur Georg greindi bróður sínum frá því sem gerst hafði. Hann ákvað að ræða við „nýju leigendurna“ ásamt félaga sínum. Að sögn Guðmundar Georgs fóru þeir báðir inn í Háseylu og báðu fólkið að koma sér út úr íbúðinni. „Það sem þeir gerðu var kannski ekki rétt af þeim að gera en það varð til að skvetta olíu á eldinn“.Húsið varið með vopnum„Daginn eftir hringdi maður til mín sem kynnti sig sem nokkurs konar verndarengil fólksins. Hann væri vopnaður og ef strákarnir kæmu aftur yrðu þeir drepnir. Ég vildi fá að hitta þennan mann og keyrði því inn í Háseylu. Á leiðinni hugsaði ég „Hvað er ég búinn að kalla yfir mig“. Ég varð hins vegar að sjá þetta því ég gat vart trúað mínum eigin eyrum. Ég bankaði uppá og maðurinn kom til dyra og bauð mér inn fyrir. Ég spurði hann hvort honum væri alvara með hótun sinni og þá leiddi hann mig um húsið. Þar sá ég svart á hvítu hversu alvarlegt málið var. Hann var með stórar og miklar sveðjur við alla innganga í húsið. Ég forðaði mér út og á leiðinni heim mætti ég lögreglunni. Þeir voru ekki ánægðir með þessa heimsókn mína í húsið“.Guðmundur Georg segist vera búinn að fá margar símhringingar frá fólkinu þar sem honum sé hótað öllu illu. Bæði sé hringt í hann í vinnuna og síðan hringir síminn hjá honum um miðjar nætur þar sem honum sé hótað dauða og djöfulgangi. „Ég hef sett mig í samband við lögregluna sem nokkrum sinnum hefur haft afskipti af samskiptum mínum og fólksins án þess þó að geta nokkuð aðhafst frekar í málinu. Ég hef einnig haft samband við sýslumanninn í Keflavík og félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ. Ég fæ að sjálfsögðu engar upplýsingar hjá félagsmálayfirvöldum þar sem öll þeirra mál eru trúnaðarmál. Sömu sögu er að segja af Húseigendafélaginu. Þar leið mér eins og ég væri bara eitt mál af hundrað“.Hundar komnir í húsiðFljótlega eftir að fólkið flutti inn í hús Guðmundar Georgs fékk það til sín tvo vígalega Sheffer hunda. Ég tjáði fólkinu strax að ég væri andvígur því að þau væru með hundana í húsinu og kærði til hundaeftirlitsins. Ég hafði leigt út íbúð í kjallara hússins til stúlku. Ég bað hana að veita ekki sitt leyfi fyrir hundunum. Hún ætlaði ekki að gera það, enda sagðist hún vera hrædd við dýrin. Fjórum dögum síðar var stúlkan flutt út úr húsinu og skilaði mér lyklunum.Hundaeftirlitið hefur sent nokkur bréf til fólksins þar sem það er beðið að losa sig við hundana þar sem þeir séu þarna í leyfisleysi. Allir frestir eru löngu liðnir. Þau hafa hring í mig í vinnuna og hótað mér ofbeldi fyrir það að vera að reyna að hafa af þeim hundana. Þá hafa þau hringt í hundaeftirlitið og hótað að nú væri kominn tími á að drepa mig.“Tek hótanirnar alvarlega- Ertu ekkert hræddur við þessar hótanir?„Það er ekki annað hægt en að taka þessar hótanir alvarlega og ég hef beðið um vernd fyrir fyrrverandi konuna mína eftir að hún sá konu ganga í kringum bílinn hennar. Hún kallaði til konunnar hvort hún gæti eitthvað aðstoðað hana. Þá sagði konan að fyrst við værum að angra þau og vildu láta taka hundana, þá væri komin tími til að þau myndu skemma fyrir okkur. Síðan sagði hún að verkefni dagsins væri að rispa bílinn en að verkefni kvöldsins og helgarinnar væri að stúta húsinu í Háseylu“.Aðspurður hvers vegna hann kæmi allsstaðar að lokuðum dyrum með aðstoð, sagði Guðmundur Georg að til þess að opinberir aðilar kæmu að málinu yrði fólkið að gera Guðmundi mein. Það forðast hins vegar að vinna honum mein þar sem fólkið er á skilorði, að sögn Guðmundar Georgs. Hann vonast samt til þess að þurfa ekki að enda stórslasaður á sjúkrahúsi til að fá húsið sitt aftur. „Ég er hinsvegar með morðhótanir á bakinu sem mér er sagt að taka alvarlega“.-Veistu eitthvað um ástand íbúðarinnar?„Ég hef ekki komið inn í húsið lengi en ég vonast til að allt sé í lagi þarna innandyra. Ég hef hins vegar orðið vitni að því þegar Róbert hefur skipt skapi og þá hefur konan hans látið að því liggja að hún ætli að rústa íbúðinni“.Hundarnir fengu frestÞað nýjasta í málinu er að Guðmundur Georg fékk lögfræðing í Keflavík sl. föstudag til að vinna að málinu fyrir sig. Þá átti lögreglan að sækja hundana í íbúðina í vikunni en hundaeftirlitsmaður gaf frest þar sem Róbert sagðist vera að flytja út úr húsinu.Aðspurður sagðist Guðmundur Georg vonast til að losna við fólkið fyrr en síðar út úr sínu húsi. „Ég hef staðið í miklum leiðindum vegna þessa máls. Þetta er þungur baggi á mér en ég er ekki búinn. Ég vonast til að fá góðan stuðning og þarf á honum að halda“. Guðmundur Georg sagðist í samtali við blaðið vart hafa trúað því að svona nokkuð gæti gerst. Það sem hann hafi mátt þola séu hlutir sem hann voni að enginn annar þurfi að reyna og hann hvatti fólk til að vera á varðbergi þegar það ætlar sér að leigja út íbúðir til fólks sem það þekkir ekkert til.