Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óþreytandi í Verslunarrekstri og félagsmálum
Fimmtudagur 19. janúar 2006 kl. 17:36

Óþreytandi í Verslunarrekstri og félagsmálum

Kristín Kristjánsdóttir hóf rekstur fatabúðarinnar Kóda ásamt Halldóru Lúðvíksdóttur árið 1983 í kjallara gömlu lögreglustöðvarinnar þar sem Olsen Olsen er nú til húsa. Þær ráku búðina saman í tæp 20 ár þar til Hildur, systir Kristínar, kom inn í reksturinn í stað Halldóru.

Ég veit eiginlega ekki hvernig þetta kom til,” sagði Kristín í samtali við Víkurfréttir, en hún hafði að eigin sögn enga reynslu af verslunarrekstri þegar þær byrjuðu. „Ég  var bara með ólæknandi fatadellu og mikinn áhuga og það hrinti okkur af stað. Við vorum ungar konur með börn, en við vorum bjartsýnar og langaði að prófa eitthvað nýtt. Svo hefur þetta rúllað einhvern vegin þó þetta sé ekki alltaf dans á rósum, en okkur var mjög vel tekið allt frá upphafi.”

Taka samkeppni fagnandi
Ekki hefur altaf blásið jafn byrlega og nú í verslunarrekstri á Suðurnesjum því fyrir nokkrum árum var svartsýnin allsráðandi. Kristín segir andrúmsloftið hafa gjörbreyst. „Verslunum var að fækka við Hafnargötuna og það var manni að sjálfsögðu áhyggjuefni. Það var ekkert nema neikvæðni og svartsýnisröfl sem enginn græðir neitt á. Svo með jákvæðri stjórnum í bænum okkar og betri bæjaranda skapast meiri áhugi á bænum og verslunarrekstri sem er bara jákvætt fyrir okkur hin. Fólk heldur að við séum á taugum þegar nýjar búðir koma en við tökum öllum fagnandi. Þegar úrvalið eykst fer fólki að fjölga og þá hagnast allir. Ég er búin að standa í þessu í rúm 20 ár og sé ekkert nema bjarta tíma framundan.”

Þrífst best í annríki
Samtökin Betri Bær voru stofnuð árið 2003 í þeim tilgangi að efla rekstur fyrirtækja í Reykjanesbæ og þá sérstaklega miðbæinn. Kristín hefur tekið virkan þátt því starfi og telja samtökin nú um 150 fyrirtæki. Á meðal verkefna samtakanna er Jólabærinn Reykjanesbær, sem Kristín er í forsvari fyrir. „Vinnan í kringum Jólabæinn er bara gaman og mikið aksjón í kringum það. Annars þrífst ég í því að hafa nóg að gera og það er að sjálfsögðu mikið að gera um jólin.”
Fyrir þessi jól var talið að verslun á Suðurnesjum myndi gjalda fyrir þann fjölda Íslendinga sem fór í verslunarferðir á árinu. Svo fór þó ekki og gekk jólaverslunin vel. Kristín segir að rétt hugarfar verslunareigenda skipti máli.
„Stundum veltir maður því fyrir sér hvort eitthvað eigi eftir að hafa áhrif á gengi verslana hér, en það er einföld staðreynd að í svona litlu samfélagi verður þú að standa þíg og verða samkeppnishæf hvað varðar þjónustu og verð. Ég vil meina að það höfum við gert.
Áður fyrr var oft spurt hvað maður væri að gera í Keflavík, en nú vilja allir vita hvað hafi gerst hér í Reykjanesbæ. Það hefur orðið bylting í hugarfari annara til okkar. Það er allt orðið svo flott og fínt hjá okkur og ég vil trúa því að bjartir tímar séu framundan.
Við systur í Kóda höldum alla vegana okkar striki. Við erum ekki með á döfinni að stækka við okkur heldur ætlum við að halda betur utan um það sem við erum með.”

Skemmtilegt starf en mikil vinna
Íþróttir hafa alla tíð verið stór hluti af heimilislífinu hjá Kristínu og hennar fólki. Davíð Þór, yngri sonur hennar, lék til margra ára með Íslandsmeisturum Keflavíkur áður en hann flutti sig um set fyrir skemmstu og Kiddi æfði körfubolta af kappi fram á unglingsár. Síðustu fimm ár hefur Kristín verið í stjórn barna- og unglingaráðs Keflavíkur og segir hún það vera afar gefandi starf.
„Það er bara svo gaman að vinna með fólki og maður kynnist svo mörgum í gegnum starfið. Ég var búin að heita mér því að þegar strákarnir mínir væru orðnir stálpaðir gæti ég farið að gefa mig í að vinna að barna- og unglingastarfi í íþróttum og fór að vinna að körfunni á fullu. Nú er ég samt að draga mig út úr þessu. Þó að starfið hafi verið ótrúlega skemmtilegt er líka ótrúlega mikil vinna sem fylgir því. Ég trúi því líka að maður eigi ekki að ílengjast í svona starfi í meira en fjögur til fimm ár því þá ertu að brenna yfir. Þá víkur maður fyrir nýju fólki og nú er Margrét Sturludóttir búin að taka við og ég er rosalega ánægð með að hún sé komin í minn stað.”

Hefur íþróttablóð í æðum
Kristín er sjálf ekki ókunnug íþróttaiðkun og hefur mikið keppnisskap að eigin sögn. „Við vorum þrjár systurnar sem spiluðum handbolta hjá Sigga Steindórs á sínum tíma og við rifumst alveg eins og hundar og kettir þó að við værum allar í sama liði,” segir Kristín og hlær dátt. „Mamma hótaði því oft að banna okkur að æfa því við rifumst svo mikið. Þannig að ég get ekki neitað því að ég hef mikla kepnishörku og íþróttablóð í æðunum, en íþróttirnar hafa spilað mikinn þátt í okkar fjölskyldulífi og veitt okkur foreldrunum ómælda ánægju.”

Verð alltaf með í Samkaupsmótinu
Hápunktur ársins hjá yngri flokkunum, Samkaupsmótið, er framundan og undirbúningur er farinn af stað. Sem fyrr er Kristín þar í eldlínunni. „Ég er á kafi í undirbúningi fyrir mótið sem er alltaf að verða stærra og stærra þannig að það er ótrúlega mikið að gera í kringum það. Það er líka ofsalega gaman og Samkaupsmótið er eitthvað sem ég verð alltaf með í. Þó ég geri ekki neitt annað en að labba um eða sussa á krakkana. Þetta er mikið verkefni en það sem gerir það kleift er ótrúlega góð samvinna Keflavíkur og Njarðvíkur. Þar sýnum við hvað við getum verið öflug þegar við vinnum saman, en það er ofboðslega margt fólk sem þarf að koma að því móti svo vel takist til.”

Maður þarf að gefa af sér
Þrátt fyrir að Kristín sé að minnka við sig í körfunni segist hún alls ekki vera að hætta í félagsstörfum.
„Árin í körfunni eru búin að vera frábær tími og gaman að hafa hellt sér út í þetta. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar ég fór út í þetta hvað þetta var rosalega mikil vinna og ég tek ofan af fyrir öllu því fólki sem gefur sig í það að vinna sjálfboðavinnu eins og þessa. Það er mín skoðun að fólk á að gefa af sér til samfélagsins. Við búum í frábæru samfélagi og eigum að hlúa að því og þessum yndislegu krökkum sem við eigum á öllum sviðum.
Nú er ég hins vegar orðin amma og er rosalega lukkuleg með það og hlakka til að gefa mér meiri tíma til að sinna því. Ég er samt ekkert hætt í félagsstörfum og ég á eftir að hjálpa til í körfunni svo lengi sem fólk vill nýta mig. Maður getur alltaf hálpað til þó það sé ekki nema að taka að sér að þrífa búninga eða eitthvað slíkt. Það er alltaf eitthvað sem maður getur gripið í.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024