Ósvífnir dósaþjófar handteknir
Dósaþjófar voru gripnir glóðvolgir í Dósaseli í Reykjanesbæ í gær. Þar voru á ferð einstaklingar sem höfðu farið ránshendi um flösku- og dósagám unglingaráðs Reynis í Sandgerði sem stendur við Reynisheimilið.
Formaður unglingaráðs varð var við þjófana og náði bílnúmeri þeirra sem hann kom svo áfram til Dósasels og Lögreglunnar á Suðurnesjum.
Þegar óþokkarnir komu svo til að leysa út hinn illa fengna gróða voru þeir gripnir glóðvolgir af lögreglunni.
Á heimasíðu Reynis segir að dósasöfnun sé ein helsta fjáröflunarleið unglingastarfsins. Það sé með ólíkindum að nokkur skuli leggjast svo lágt að stela fjármunum af börnunum, en nú eru áætlanir um að skipta um gám sem verður ekki hægt að stela úr.
Þar til hann er kominn í gagnið biðja forsvarsmenn Reynis bærjarbúa um að hafa augun opin varðandi þjófnað úr söfnunargáminum.
VF-mynd úr safni - Tengist fréttinni ekki