Óstöðugleiki í ofni rímar við ábendingar íbúa
- Ofn United Silicon ekki ræstur á ný nema í samráði við Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun hefur kynnt United Silicon þau áform sín að stöðva rekstur verksmiðjunnar um óákveðinn tíma vegna mengunaróhappa sem valdið hafa íbúum í Reykjanesbæ óþægindum. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir stöðvunina enn sem komið er vera áform en ekki ákvörðun. United Silicon hefur fram til föstudags til að gera athugasemdir við áformin. „Málið stendur þannig núna að miðað er við að ofninn verði ekki ræstur nema í samráði við Umhverfisstofnun,“ segir Sigrún.
Eldsvoði kom upp í kísilverksmiðjunni aðfararnótt þriðjudags og er því engin framleiðsla þar núna þar sem unnið er að viðgerðum. Sigrún segir það ljóst að óstöðugleiki sé í gangi ofns verksmiðjunnar og að hann rími við tímasetningar á ábendingum íbúa. Þegar slökkva þurfi á ofninum í klukkustund eða lengur finni íbúar fyrir mengun og óþægindum.
Áður hafði verið ákveðið að stöðva starfsemina fyrir páska. Ástæðan var sú að dagana fyrir páska höfðu margir íbúar í nágrenni verksmiðjunnar fundið fyrir lyktarmengun. Umhverfisstofnun kynnti United Silicon áformin með bréfi. Í því sagði að von hefði verið á norðlægum áttum um páskana og því taldi Umhverfisstofnun aukna hættu á að lykt bærist yfir íbúabyggð og/eða útivistarsvæði. Hætt var við stöðvunina eftir fund með stjórnendum United Silicon á skírdag þar sem þeir tilkynntu að ákveðið hefði verið að ræsa ekki ofn verksmiðjunnar í næsta óvænta ofnstoppi sem myndi vara lengur en í klukkustund.