Óskar eftir fundi um húsnæðismál og hælisleitendur
Ísak Ernir Kristinsson hefur óskað eftir fundi í Velferðarráði Reykjanesbæjar eins fljótt og unt er vegna tveggja mála sem brennur á fólki í samfélaginu. Annars vegar er það húsnæðisvandi í Reykjanesbæ og gríðarleg fjölgun heimilislausra. Hinsvegar málefni hælisleitenda og nýtt úrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú.
Ísak Ernir greinir frá þessu á fésbókarsíðu sinni og segir þar:
„Mér finnst eðlilegt að fagnefndin sem þessi mál falla undir taki málin til sérstakrar umfjöllunar.
Upp er komin gríðarlega alvarleg staða á húsnæðismarkaði í Reykjanesbæ. Mikil vinna hefur átt sér stað síðustu ár, bæði hjá starfsmönnum Reykjanesbæjar sem og kjörinna fulltrúa, við gerð á ýmsum stefnum, sem er vel. En stefnur eru marklausar ef ekki á að fara eftir þeim.
Í upphafi fjölskyldustefnu Reykjanesbæjar segir:
„Fjölskyldan er hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem einstaklingarnir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum“
Stefnan inniheldur fullt af markmiðum. Ég ætla að skilja eftir hér eitt markmiðið:
„Að nægilegt framboð sé á félagslegu húsnæði hverju sinni og við kaup eða byggingu slíks húsnæðis sé þess ávallt gætt að velja hagkvæmustu leiðir m.t.t. leiguverðs.“
Í dag er fjögurra ára bið eftir félagslegu húsnæði. Sveitarfélagið er eitt það öflugasta þegar kemur að fjölda félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga. Hugsanlega þurfum við að hugsa út fyrir kassan til að leysa þann vanda sem upp er kominn. Ég er ekki með lausnina en mér finnst rétt að fara yfir þessi mál og ræða hugsanlegar lausnir. Við verðum að gera eitthvað!
Reykjanesbær sinnir um 80 hælisleitendum fyrir Útlendingastofnun. Nú hefur ÚT tekið í notkun úrræði á Ásbrú sem kemur til viðbótar þeim fjölda sem Reykjanesbær annast. Miklar umræður hafa verið um þessi mál í samfélaginu og á samfélagsmiðlum. Mér finnst rétt að Velferðanefnd sé upplýst um málið“.