Óska eftir lögbanni á ákvörðun DS
Fulltrúi Sveitarfélagsins Garðs telur ákvörðun stjórnar Dvaldarheimla aldraðra Suðurnesjum, DS, frá 15. júlí 2013 um flutning hjúkrunarrýma úr hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Sveitarfélaginu Garði ólögmæta þar sem ákvörðun meirihluta stjórnar DS um flutninginn hafi ekki fullnægt lagaskilyrðum. Þetta segir í bókun sem lögð var fram á fundi DS á miðvikudag.
„Ákvörðun af því tagi að leggja niður starfsemina í Garðvangi er þess eðlis að einróma samþykki allra eigenda þarf til svo viðamikillar breytingar á starfsemi innan DS. Þar sem DS er sameign allra sveitarfélaganna sem mynda DS getur hluti sveitarfélaganna ekki ráðstafað málefnum félagsins á þann hátt sem gert var með ákvörðuninni 15. júlí 2013. Allar ákvarðanir sem teknar hafa verið í framhaldi af og í tengslum við ofangreinda ákvörðun eru einnig ólögmætar.
Verði hin ólögmæta ákvörðun ekki formlega afturkölluð eða felld úr gildi af stjórn DS innan viku frá bókun þessari mun Sveitarfélagið Garður óska eftir lögbanni við flutningi hjúkrunarrýmanna auk þess að að ganga úr DS og krefjast innlausnar á eignarhlut sínum í sameignarfélaginu.
Allt ofangreint er í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar sveitarfélagsins Garðs 15. janúar 2014,“ segir í bókun fulltrúa Garðs í stjórn Dvalarheimila aldraðra Suðurnesjum.