Ósáttur við áherslur meirihlutans
Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er ósáttur við áherslur meirihlutans með auknum álögum á íbúa bæjarins en Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi Fráls afls lagði fram bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar frá flokkunum í minnihlutanum, Frjálsu afli, Miðflokknum og Sjálfstæðisflokki.
Fulltrúar meirihlutans, Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar lögðu einnig fram bókun þar sem fram kemur að Reykjanesbær ásamt Akranesi og Vestmannaeyjum séu einu sveitarfélögin sem lækki fasteignaskatta nógu mikið á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði til þess að tekjur þeirra muni ekki hækka umfram þau 2,5% sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mælst fyrir. Þá kemur einnig fram í bókuninni að eðlilegar skýringar séu á fjölgun starfsmanna og að álögur á íbúa fari lækkandi.
Bókun minnihlutans:
„Minnihlutinn er ósáttur við áherslur meirihlutans með auknum álögum á íbúa bæjarins og harmar sérstaklega að mikil tekjuaukning sé ekki nýtt til að svara ákalli bæjarbúa um hóflega innheimtu fasteignaskatta. Reykjanesbær er að innheimta hæstu fasteignaskatta af öllum bæjarfélögum landsins. ORK sjóðurinn skilar bæjarsjóði rúmum fjórum milljörðum og lögbundnu skuldaviðmiði hefur verið náð.
Minnihlutinn er ósáttur við kostnaðarsamar breytingar á stjórnskipulagi bæjarins sem eru illa skilgreindar, illa útfærðar og hafa í för með sér verulega aukin útgjöld. Þá er rétt að vekja athygli á miklum launahækkunum sem meirihlutinn stendur að, til stjórnenda bæjarins langt umfram hækkanir launa sem samið var um í lífskjarasamningunum.
Hluti minnihlutans samþykkti síðustu fjárhagsáætlun en lagði þar áherslu á 4 atriði sem meirihlutinn hefur ekki tekið tillit til – sérstaklega lækkun fasteignaskatta.
Minnihlutinn leggur áherslu á aðhald í rekstri, aukna atvinnuuppbyggingu og skynsamlega uppbyggingu innviða á næstu árum sem er forsenda fyrir lækkun fasteignaskatta.Minnihlutinn samþykkir því ekki fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.“
Gunnar Þórarinsson (Á), Margrét Þórarinsdóttir (M), Hanna Björg Konráðsdóttir (D), Baldur Guðmundsson (D) og Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D).