„Ósamlyndi heftir framfarir þjóðarinnar“
Silja Dögg er fædd og uppalin í Ytri Njarðvík, gekk þar í grunnskóla en lauk stúdentsprófi frá MA árið 1993. Hún er með B.A.-gráðu í sagnfræði frá HÍ en hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, m.a. sem blaðamaður, lögreglumaður, kennari, rekið minjagripafyrirtæki, svo eitthvað sé nefnt. Síðastliðin fimm ár hefur hún starfað sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar HS Orku og skjalastjóri. Silja hefur verið varabæjarfulltrúi síðan 2010 í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og á sæti í Atvinnu- og hafnaráði. Nú stendur hún frammi fyrir enn einni áskoruninni, þar sem hún mun að öllum líkindum setjast á þing á næsta kjörtímabili en hún skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum í vor.
Maður verður að skora sjálfan sig á hólm
„Lífið er ferðalag“, svarar Silja þegar þennan langa lista ólíkra starfa á ekki lengri starfsævi ber á góma í upphafi viðtals. „Ef maður ætlar að læra og vaxa sem manneskja þá verður maður að skora sjálfan sig reglulega á hólm. Þegar ég lít til baka þá sé ég að ég hef góðan bakgrunn og fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu sem mun nýtast mér vel við störf þingmannsins.“
- Hvernig kom það til að þú ákvaðst að taka þátt í stjórnmálum?
„Eitt leiðir af öðru og þau störf sem maður fæst við á lífsleiðinni beina manni stundum á ákveðna braut. Svo er ég kannski bara stjórnsöm í eðli mínu, forvitin og með mikinn áhuga á samfélaginu og fólki. Mér þykir rosalega vænt um samfélagið mitt og landið mitt. Ég starfaði í félagi ungra framsóknarmanna Reykjanesbæ í nokkur ár hér á árum áður en svo kom tímabil þar sem hugurinn beindist að öðrum hlutum. Svo var haft samband við mig fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og ég beðin um að vera framarlega á framboðslista Framsóknar. Mér fannst það alveg fráleit hugmynd í fyrstu en ákvað svo að slá til og úr varð að ég tók annað sætið. Þetta var mjög skemmtilegt tímabil, kosningarnar og allt sem þeim fylgdi“, segir Silja og brosir en síðan þá hefur hún átt sæti í Atvinnu- og hafnaráði auk þess að sitja nokkra fundi í bæjarstjórn sem varafulltrúi. „Ég finn að þetta á vel við mig. Ég hef gaman af að vera innan um fólk og vera í hugmyndavinnu og er óhrædd við að segja mína skoðun. Mér datt samt aldrei í hug að ég myndi einhvern tímann bjóða mig fram til Alþingis. Lífið kemur sífellt á óvart.“
Fleiri standi upp og segja sína skoðun
„Flestir hafa einhverjar skoðanir á hlutunum en eru oft hræddir við að láta vita hverjar þær eru. Við erum hrædd um að vera „afhjúpuð“, segja eitthvað rangt og vita ekki allt. Um leið og fólk fær aukið sjálfstraust og kemst yfir þessa hræðslu þá getur það látið rödd sína heyrast. Og ég vil sjá það gerast, að fleiri standi upp og segi sínar skoðanir,“ segir Silja alvarleg á svip og heldur áfram: „Það hefur að vísu gerst í kjölfar Hrunsins, eftir allt þetta umrót og endurskoðun sem orðið hefur í samfélaginu. Dæmi um það er landslagið í pólitíkinni núna með öllum þessum litlu framboðum. Þau sýna hversu mörgum er umhugað um landsmálin og vilja hafa áhrif á samfélag sitt.“
- Hvaða málefni standa þínu hjarta næst og þú vilt beita þér fyrir sem þingmaður?
„Sem þingmaður Íslendinga þá er það fyrst og fremst skuldavandi heimilanna og að koma atvinnulífinu aftur í fullan gang“, svarar Silja með þungri áherslu. „Heimilin eru kjarni samfélagsins, salt jarðarinnar, og ef þau geta ekki rekið sig þá fer fólk burtu eins og dæmin hafa sýnt. Þeir sem eftir eru búa margir við mikla vanlíðan og óhamingju og það bitnar á börnunum. Ef við náum ekki að byggja upp börnin okkar sem heilbrigða og sterka einstaklinga þá getum við ekki byggt upp heilbrigt samfélag. Þannig grefur það undan samfélaginu þegar heimilin eru að sligast undan skuldum. Og þó það séu ekki allir í skuldavanda þá eru þeir allt of margir. Þess vegna þarf að leggja höfuðáherslu á að leysa þetta mál. Lyfta skuldafarginu af heimilunum svo þau geti dregið andann og horft fram á veginn með von í hjarta“, segir Silja en skuldavandi heimilanna er ekki eina verkefnið sem hún mun leggja áherslu á, atvinnumálin eru henni einnig hugleikin enda er atvinna nauðsynleg til að tryggja afkomu heimilanna og byggja undir velferð í samfélaginu. „Áhersla okkar í Framsókn verður fyrst og fremst á að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum róðurinn. Það þarf að einfalda skattkerfið og minnka allt þetta regluverk og skattaálögur sem vinstri stjórnin er búin að kaffæra atvinnurekendur í. Það þarf að koma atvinnulífinu af stað með öllum ráðum og það er það sem ég mun leggja áherslu á.“
„Sem Suðurnesjamanneskja þá mun ég að sjálfsögðu beita mér eins mikið og ég get fyrir hagsmuni okkar svæðis á öllum sviðum. Ég er fædd og uppalin í Njarðvík, þekki þetta svæði því vel og þykir óendanlega vænt um svæðið og fólkið hér. Hér er mikil gróska og miklir möguleikar og fullt af góðu og dugmiklu fólki. Við verðum að vera dugleg að sýna hvað í okkur býr og halda áfram að bæta ímynd okkar frábæra svæðis.“
Sannfæringin verður að koma frá hjartanu
- Hvaða mannkostum á stjórnmálamaður að vera búinn?
„Ég hef mikið hugsað um það eftir að ég fór í þetta framboð og spurt sjálfa mig að hvernig stjórmálamaður ég vilji vera. Ég held að númer eitt sé að vera auðmjúkur gagnvart fólki því um leið og þú gleymir þér í hrokanum þá ertu farinn að tapa. Stjórnmálamaður í lýðræðisríki, eins og við búum í, er fulltrúi fólksins sem er að kjósa hann til að tala sínu máli á þinginu. Völd eru bara tímabundin, koma og fara eins og peningar. Annað sem er mjög mikilvægt er kærleikurinn. Þú ert að vinna fyrir fólk – alltaf. Ég er ekki að tala um að gleyma sér í tilfinningasemi, heldur að sannfæringin verður að koma frá hjartanu og byggjast á kærleika og umhyggju fyrir samfélaginu.“
- Störf Alþingis hafa verið gagnrýnd mikið undanfarin misseri samfara þverrandi trausti almennings á þeirri stofnun. Hvernig geta þingmenn næsta kjörtímabils bætt úr því?
„Mér finnst minn flokkur alveg vera búinn að standa sig á vaktinni við að finna leiðir til lausna á vanda heimilanna en það ömurlega er að það hefur ekkert verið hlustað á það. Forgangsröðunin hefur verið röng að mínu mati. Framkoma sumra þingmanna er svo einn kapítuli út af fyrir sig. Mér finnst hún á köflum vera alveg skelfileg og hluti þingmanna ekki að sýna stofnuninni né hlutverki sínu neina virðingu. Slík framkoma grefur undan virðingu Alþingis. Þessari þróun verður að snúa við.
Svo er gífurleg tímasóun í öllu þessu málþófi sem viðgengst. Í norska þinginu eru t.d. fastar reglur um tíma sem fer í hvert málefni og þau hreinlega kláruð innan þess ramma. Það þarf að endurskoða vinnulagið og þær reglur sem gilda á þinginu til að bæta þetta. Svo verður þingið að forgangsraða sínum málum betur ef við eigum að geta byggt þetta land upp að nýju.“
Þurfum að vinna saman til að ná árangri
- Hver er þín skoðun á stöðu mála almennt á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins? Erum við á réttri leið út úr þeim hremmingum?
„Eitthvað hefur áunnist og maður sér það þegar maður hugsar til baka til þessa dags þegar Geir sagði „Guð blessi Ísland“. Á þeim tíma vissi maður ekkert hvað morgundagurinn bæri í skauti sér. En ég trúi því að ef það hefði verið hlustað á tillögur Framsóknarflokksins á sínum tíma, eins og t.d. 20% leiðina og að ríkið hefði keypt þrotabú föllnu bankanna á hrakvirði á sínum tíma í stað þess að hleypa erlendum vogunarsjóðum að borðinu, þá væri staðan allt önnur og betri. Að mínu mati voru þetta ein stærstu mistökin sem stjórnarflokkarnir gerðu. Svo hefði þurft að styðja við fyrirtækin, létta þeim róðurinn í stað þess að kæfa þau í skattaálögum. Skjaldborgin um heimilin var reist en hún sneri því miður öfugt þannig að heimilin máttu brenna á meðan allt kapp var lagt á að vernda þá sem áttu peningana, fjármálafyrirtækin og erlenda kröfuhafa. Klifað var á því að nóg væri til af peningum til að borga t.d. Icesave en svo þegar kom að skuldavanda heimilanna þá voru ekki til neinir peningar. Því segi ég: Ef ekki eru til peningar til að hjálpa heimilunum hvað kostar það okkur ef við gerum það ekki? Það kostar þjóðfélagið miklu meira til lengri tíma litið heldur en að fara í þetta verkefni og leiðrétta þetta. Verðtryggingin er svo hluti af vandamálinu og meðan þorri fólks vill hana í burtu segja varðhundar hennar að hún sé nauðsynleg. En ég spyr þá: Við erum eina þjóðin í heiminum með verðtryggingu. Hvað segir það um okkar hagstjórn? Er þá ekki eitthvað sem við þurfum að laga? Er ekki málið að fara í það verkefni, leggjast öll á eitt og hjálpast að með það í stað þess að vera að hnýta í hvort annað. Segja bara: Þetta er verkefnið. Vinnum saman að því, nýtum tækifærin og náum árangri,“ segir Silja með áherslu.
„Ég hef alltaf verið þeirrar trúar að með því að vinna saman að málum þá náum við árangri og þess vegna hefur þessi gamla samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins hitt í mark hjá mér. Svo verða að vera ákveðnar reglur og viðmið til að hlutirnir gangi upp. Þess vegna trúi ég ekki á algjöra og óhefta frjálshyggju því það er svo fín lína á milli þess mannlega og dýrslega í manninum. Hvenær er frelsi eins farið að skerða frelsi annars? Ef allir fá að gera það sem þeir vilja þá kemur það alltaf niður á einhverjum öðrum. Því fylgir ábyrgð að vera hluti af samfélagi manna.“
Hef mikilla hagsmuna að gæta sem Íslendingur
„Ég er í stjórmálum af heilum hug og hjarta. Ég hef mikilla hagsmuna að gæta sem Íslendingur og sem móðir. Ég er ekki til í að sitja bara í einhverju letikasti og hugsa bara að aðrir sjái um að vinna verkin. Ég vil leggja mitt af mörkum og trúi því að ef maður er nógu úthaldsgóður og með skýr markmið, þá kemst maður á leiðarenda.“
- Hver er óskastaðan í þínum huga við lok næsta kjörtímabils eftir fjögur ár?
„Ég vona að skuldavandi heimilanna hafi verið leystur. Verðtrygging verður aðeins nefnd í sögubókum framvegis og að okkur hafi tekist að ná tökum á verðbólgunni og vöxtum. Atvinnulífið verður orðið blómlegt og að hamingjan verði allsráðandi; já, og að alþingismenn verði farnir að koma virðulega fram í þinginu“, segir Silja kankvís og bætir við: „Þá verður miklu betra að vera Íslendingur.“