Öryggisvörður bjargar manni úr brennandi íbúð
Öryggisvörður Securitas sýndi snarræði þegar hann bjargaði manni út úr brennandi íbúð við Mávatjörn sl. nótt. Talsverður eldur logaði í potti á eldavél þegar öryggisvörðurinn kom að húsinu, en íbúðin er tengd við öryggiskerfi Securitas.
Öryggisvörðurinn kallaði þegar til Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og fór síðan inn í íbúðina og bjargaði húsráðanda út, sem hafði sofnað í sófa. Þá var þykkur reykur inni í íbúðinni. Eftir að hafa komið húsráðananum út fór öryggisvörðurinn aftur inn og slökkti eldinn. Það kom síðan í hlut slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja að reykræsta húsið.
Kunnugir segja að aðkoma öryggisvarðar Securitas hafi skipt sköpum og hugsanlega bjargað lífi þess sem var inni í íbúðinni, sem var að fyllast af reyk og mikill eldur í pottinum í eldhúsinu.