Öruggur útisigur tryggir titilinn
Keflavík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla þriðja árið í röð með sigri á Snæfelli, 88-99, í Stykkishólmi í dag. Þessi sigur markar jafnframt tímamót í sögu körfuknattleiksins á Íslandi því þetta er í fyrsta sinn sem lið vinnur þrjú ár í röð í karla- og kvennaflokki.
Keflavíkingar byrjuðu leikinn með miklum látum og hreinlega keyrðu yfir heimamenn á köflum í fyrsta leikhluta. Magnús Þór Gunnarsson átti stórleik og skoraði 13 stig í leikhlutanum, þar af þrjár 3ja stiga körfur. Jón Norðdal Hafsteinsson átti líka frábæra innkomu með átta stig og fjöldann allan af fráköstum.
Vörn Snæfells var úti á þekju þar sem Keflvíkingarnir skoruðu hvert stigið á fætur öðru úr hraðaupphlaupum og eftir sóknarfráköst. Skilaði áhlaupið 11 stiga forskoti eftir fyrsta fjórðung, 22-33.
Liðin skiptust á körfum í upphafi annars leikhluta þar sem Nick Bradford og Anthony Glover fóru fremstir í flokki Keflvíkinga. Enn voru Snæfellingar allt of seinir aftur og létu taka sig á hraðaupphlaupunum sem gestirnir beittu miskunnarlaust. Skipti þá litlu þótt sóknarleikurinn gengi vel.
Heimamenn hrukku loks í gang þegar leikhlutinn var hálfnaður og staðan var 35-48. Þá steig Pálmi Sigurgeirsson upp fyrir sína menn og skoraði 7 stig á stuttum kafla og var lykilmaðurinn í endurreisn Snæfells. Þeir skoruðu 15 stig á móti 2 og jöfnuðu leikinn 50-50 þegar stutt var til hálfleiks. Glover og Sverrir Þór Sverrisson tryggðu sínum mönnum hins vegar forskot í hálfleik, 50-53.
Pálmi opnaði seinni hálfeikinn með þriggja stiga körfu og jafnaði leikinn. Skömmu síðar komust þeir yfir, 55-53, en þá sögðu Keflvíkingar hingað og ekki lengra og settu 10 stig í röð og náðu forskotinu á ný.
Eftir það náðu Snæfellingar ekki að ógna forskotinu af alvöru þar sem Glover og Magnúsfóru enn mikinn. Ames klóraði í bakkann fyrir Snæfell og minnkaði muninn í fimm stig, 66-71, en nær komust þeir ekki. Síðasti leikhluti var eign Keflvíkinga sem færðust sífellt nær takmarkinu.
Snæfellingum gekk ekkert að saxa á forskotið og var það vel við hæfi að besti maður vallarins, Magnús Þór Gunnarsson, gerði endanlega út um leikinn þegar skammt var til leiksloka. Hann setti ævintýralega þriggja stiga körfu, hans sjöttu í leiknum, og fékk að auki vítaskot þar sem brotið var á honum í skotinu. Það rataði rétta leið og vonir heimamanna með öllu brostnar.
Lokastaðan var, eins og áður sagði, 88-99, og Keflvíkingar fögnuðu ákaft í leikslok. Gunnar Einarsson, fyrirliði, lyfti bikarnum hátt á loft við miklar undirtektir stuðningsmanna sem fjölmenntu á Stykkishólm. Nick Bradford var valinn besti maður úrslitanna og er vel að heiðrinum kominn eftir frábæra frammistöðu.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari, var að vonum í sjöunda himni eftir verðlaunaafhendinguna. „Við áttum mjög góðan leik í dag. Við bjuggum okkur vel undir leikinn og mættum reiðubúnir til að leggja okkur alla fram. Ég er ánægður með leikinn og allt tímabilið í heild. Þetta er búið að vera frábær vetur. Við vinnum Norðurlandamótið, deildarmeistaratitilinn og gengur vel í Evrópu og svo toppuðum við það með Íslandsmeistaratitlinum.“
Bikarmeistararatitlarnir runnu þeim úr greipum í ár en Sigurður segist ekki gráta það lengur. „Við dettum út úr bikarnum þegar við erum undir miklu leikjaálagi en árangurinn hjá okkur í ár myndi samt teljast ágætur á einhverjum bæjum. Þetta var meira að segja svo gott að við Keflvíkingar erum ánægðir og þá er nokuð sagt.“
Formleg móttaka verður við Íþróttahúsið á Sunnubraut. Búist er við að liðið mæti við hús um kl. 20.30.
Nýjar myndir væntanlegar á morgun.
Vf-myndir/Bjarni