Orrustuþota frá Bandaríska hernum komið fyrir hjá Keili
Orrustuþotu hefur verið komið fyrir á stöplum við húsnæði Keilis á Ásbrú. Orrustuþotan var lengi staðsett við aðalinngang höfuðstöðva Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Flugvélin hefur verið í geymslu í flugskýli síðan herinn fór. Orrustuþotan er í eigu sögusafns bandaríska hersins og er af gerðinni Phantom F4 orrustuþota merkt 57. flugsveit varnarliðsins. Sveitin var kölluð Svörtu riddararnir frá Keflavík.
Að sögn Arnbjörns Ólafssonar hjá Keili var orrustuþotan lengi við aðalinngang höfuðstöðva Bandaríkjahers á Keflavíkurstöðinni.
„Ástæðan fyrir því að hún er sett upp á þessum stað er sú að hún var alltaf fyrir framan aðalstöðvarnar og er táknræn fyrir sögu Keflavíkurstöðvarinnar. Hér við Keili eru aðalgatnamótin á Ásbrú og því er þetta besti staðurinn fyrir þessa orrustuþotu.
Við erum að vinna í því að setja upp upplýsingaskilti sem segir frá þessari sögu auk þeirrar starfsemi sem fer fram núna á Ásbrú. Við erum að breyta varnarstöð í þekkingarþorp“
Flugvélin er ekki lengur í notkun og er ekki í flughæfu ástandi. Nemendur í flugvirkjanámi Flugakademíu Keilis munu sjá um viðhald á henni og sjá til þess að henni verði haldið vel við,“ sagði Arnbjörn.
Sögusafn bandaríska flughersins á flugvélina og fólu Keili í samstarfi við nokkur önnur fyrirtæki á Ásbrú að setja hana upp. Einnig hefur bandaríska sendiráðið tekið þátt í þessum undirbúningi.