Örlítið meiri virkni í gígnum í dag
Örlítið meiri virkni hefur verið í gígnum í dag en undanfarið hefur RÚV eftir Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingi á Veðurstofu Íslands.
Eldgosið hófst miðvikudaginn 29. maí á Sundhnúkagígaröðinni. Jón Steinar Sæmundsson, sem m.a. hefur verið duglegur að mynda fyrir Víkurfréttir í Grindavík og nágrenni, er nærri gosstöðvunum núna með dróna.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson, blaðamaður, sem fylgdist með Jóni Steinari í dag, segir að úr fjarska væri ekki hægt að sjá eldtungurnar gægjast upp fyrir gíginn.
Á myndum Jóns Steinars má sjá að það kraumar vel ofan í gígnum og rennur hraunstraumurinn nú til norðausturs.
Á vefmyndavél RÚV (sjá spilara að neðan) má sjá að hrauntjörn sunnan við gíginn er orðin stútfull. Hún tæmdi sig í gær, sunnudag, kl. 16:40 og fór allt hraunið undir hraunbreiðuna. Þegar þetta er skrifað má sjá myndarlega hrauná renna vestur fyrir gíginn sem gýs.
Grindvíkingurinn Jón Steinar Sæmundsson með drónann á lofti yfir eldstöðvunum.