Orlik á næstsíðustu metrunum
Fyrri áfangi í förgun togarans Orlik, sem legið hefur við landfestar í Njarðvíkurhöfn í næstum fimm ár, hófst í dag. Skipinu hefur verið komið í skurð sem grafinn var innan hafnarinnar í Njarðvík.
Í skurðinum verður skipið létt, yfirbygging þess verður klippt af. Þá verður asbest fjarlægt úr skipinu.
Fyrri áfangi förgunar skipsins verður unnin á tveimur mánuðum. Þá verður skipið dregið yfir að Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem það verður rifið endanlega.
Aðgerðin í dag tókst vel. Nú er stór straumur og því var tækifærið notað til að koma skipinu á þann stað þar sem það er í dag. Stórvirkar vinnuvélar voru notaðar til að koma skipinu síðustu metrana.
Stór „búkolla“ var fengin til að draga skipið og beltagröfur héldu við skipið og stýrðu því inn í skurðinn sem hefur verið grafinn.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi af aðgerðinni.
Frá upphafi aðgerðarinnar í dag þar sem skipið var fært í sérstakan skurð innan hafnarinnar.
Auðunn og Grettir sterki við Orlik síðdegis.
Orlik á leiðinni inn í skurðinn í höfninni.
Togarinn Orlik kominn á þann stað þar sem yfirbyggingin verður klippt af honum næstu vikur og asbest fjarlægt úr skipinu áður en skipið verður dregið upp í fjöru við Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem því verður fargað endanlega.