Orkustofnun setur fram erfið skilyrði fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar
Orkustofnun hefur sett fram svo erfið skilyrði fyrir virkjanaleyfi á 50 megavöttum fyrir Reykjanesvirkjun að HS Orka telur þau óásættanleg og áformar að leggja fram stjórnsýslukæru vegna málsins.
Að sögn Júlíusar Jónssonar hjá HS Orku eru skilyrðin þannig að verði gengið að þeim mun það þýða kostnaðarauka upp á 2,5 milljarða og tefja framkvæmdir um tvö til þrjú ár.
Túrbínan fyrir þessum 50 megavöttum er komin til landsins og forráðamenn HS Orku hafa beðið vel á annað ár eftir virkjanaleyfi á Reykjanesi vegna hennar og nauðsynlegum skipulagsbreytingum. Orkustofnun telur að jarðhitakerfið standi ekki undir þessari virkjun en því eru sérfræðingar HS Orku og fjöldi ráðgjafa fyrirtækisins ósammála. Skilyrði Orkustofnunar leiða m.a. til þess að bora þarf dýpri holur og lengra frá virkjuninni á stöðum sem ekki var gert ráð fyrir að bora á. Því verður nauðsynlegt að endurskoða deiliskipulag í ferlinu og leita þarf staðfestingar á að þær nauðsynlegu framkvæmdir rúmist innan þess umhverfismats sem gert var vegna verkefnisins.