Orkukostnaður með þeim lægsta á landinu
Staðfesting á öruggri og góðri þjónustu, segir forstjóri HS veitna.
Niðurstöður útreiknings Orkustofnunar á kostnaði við raforkunotkun og húshitun.
Orkukostnaður á Suðurnesjum er með þeim lægsta á landinu á Suðurnesjum, að því er fram kemur í könnun Orkustofnunar. „Við erum að sjálfsögðu mjög ánægð með þennan samanburð sem staðfestir að mínu mati að HS Veitur veita örugga og góða þjónustu á mjög hagstæðu verði,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna.
Byggðastofnun fékk Orkustofnun til að reikna út kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum og nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli. Viðmiðunareignin var einbýlishús sem er 140 m2 að grunnfleti og 350m3. Gjöldin voru reiknuð út samkvæmt gjaldskrá þann 1. apríl 2015. Hæsti orkukostnaðurinn er í dreifbýli Orkubús Vestfjarða og RARIK og lægsti í Hveragerði. Júlíus segir HS Veitur stefna að því að vera áfram með mjög samkeppnishæf verð. „Ég bind vonir við að breyting á sölufyrirkomulagi frá hemlum til mæla komi til með að stuðla að því með sparnaði í vatnskaupum þannig að þrátt fyrir kostnað við breytinguna verði gjaldskráin áfram hagstæð viðskiptavinum fyrirtækisins.“
Júlíus telur reyndar að samanburðurinn í þessari könnun varðandi heita vatnið sé í raun ennþá hagstæðari þar sem gjaldskrá HS Veitna fyrir heitt vatn samkvæmt mælum sé um 2,5% ódýrari fyrir hvert tonn en hjá Orkuveitu Reykjavíkur en samanburður við hemlagjaldskrá er erfiðari og verður alltaf háður mati. „Væntanlega er Reykjavík því talin aðeins lægri. HS Veitum hefur tekist að halda verðinu til almennra notenda niðri þrátt fyrir að vatnskaupin frá HS Orku nálgist nú 60% af tekjum veitunnar af vatnssölu á Suðurnesjum,“ segir Júlíus.