Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Orka utan úr geimnum beisluð í Svartsengi
Miðvikudagur 12. apríl 2006 kl. 14:06

Orka utan úr geimnum beisluð í Svartsengi

Breskt fyrirtæki á sviði stjörnuvísinda hefur óskað eftir lóð undir glerkúlubyggingu í Svartsengi en í henni verður búnaður til að fylgjast með og taka við merkjum og bylgjum utan úr geimnum og umbreyta í sjónrænt form sem nýtist í margvíslegum tilgangi. Mun þetta verða fyrsta stöðin af þessu tagi sem sett er upp.

Um er að ræða litla glerkúlu, u.þ.b. 50 fermetrar að flatarmáli. Skipulags- og bygginganefnd Grindavíkurbæjar hefur tekið jákvætt í umsóknina en ráðgert er að reisa kúluna á lóð Hitaveitu Suðurnesja.

Fyrirtækið breska, sem ber heitið Yuzoz Ltd, hyggst reisa nokkrar slíkar stöðvar víðsvegar um heiminn og sækist um þessar mundir eftir einkaleyfi á þeirri tækni sem stjórnstöðin í Grindavík mun hýsa. Hún byggir á svokölluðum slembitölum sem verða til við umbreytingu merkja og bylgja utan úr geimnum, en það geta verið bylgjur frá sólgosum, hljóðmerki frá fjarlægum stjörnum, rafbylgjur frá norðurljósum og fleira.

Segja má að með þessari tækni sé verið sé að virkja orku utan úr geimnum en hún byggist á því að nema þessi merki með gervihnöttum og umbreyta í skapandi afl svo úr verður sjónrænt form. Til dæmis væri hægt að nýta hana til að keyra ljósasýningar og umbreyta í myndrænt form af ýmsu tagi eða hvaðeina sem rúmast innan hugmyndaflugs manna.

Hafa aðilar í tískuheiminum og afþreyingargeiranum til að mynda sýnt þessu áhuga en hugmyndin um að uppspretta stórfenglegra ljósasýninga sé utan úr geimnum þykir óneitanlega spennandi. Kannski eitthvað sem aðstandendur Ljósanætur ættu að skoða?

Mynd: Í síkvikum algeimi eru mikil öfl að verki. Sú orka og sem þar leysist úr læðingi sendir frá sér ýmsar bylgjur og merki sem fyrirtækið Yuzoz hyggst nýta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024