Órafmögnuð stemmning í Grindavík á gamlársnótt
Grindvíkingar lyftu sér upp á gamlársnótt eins og flestir Íslendingar vítt og breytt um landið. Nokkur erill var á öldurhúsum bæjarins og á Kantinum í eldri hluta bæjarins var samankominn talsverður fjöldi fólks.
Laust fyrir fjögur varð rafmagnslaust í hluta Grindavíkur og sló út öllu rafmagni á Kantinum. Mikill fjöldi fólks var þá á staðnum. Eigendur staðarins brugðu á það ráð að kveikja í kertum til að lýsa upp staðinn. Gestir héldu flestir ró sinni enda var ennþá hægt að stunda viðskipti með áfengi þar sem batterí er í posum staðarins.
Talið er að rafmagnsleysið hafi varað í um 45 mínútur og var vel fagnað og skálað þegar rafmagnið sló aftur inn. Skemmtanahald fór nokkuð friðsamlega fram og lítið um stympingar.