OR má ekki eiga nema 3% í HS
Orkuveita Reykjavíkur þarf að selja allan hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja umfram 3%. Þetta segir í ákvörðun Samkeppnisstofnunar sem kynnt var í dag.
Forsaga málsins er sú að íslenska ríkið seldi hlut sinn í HS. Í skilmálum sölunnar kom fram að íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu mættu ekki bjóða í hlut ríkisins og var þetta gert til þess að vernda samkeppni. Í kjölfar sölunnar komst töluverð hreyfing á eignarhald í félaginu. Eignaðist þannig OR, einn helsti keppinautur Hitaveitunnar, um 15% hlut í félaginu. Var OR jafnframt skylt að kaupa um 15% hlut Hafnafjarðarbæjar af sveitarfélaginu kysi það svo. Samkeppniseftirlitið tók viðskiptin til athugunar, en fyrirætlanir um samruna Reykjavík Energy Invest (REI), dótturfélags OR, og Geysis Green Energy höfðu áhrif á framgang rannsóknarinnar.
Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að eignarhald OR á stórum hlut í HS, öflugum keppinauti sínum, myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Fyrirtækin hafa samtals 60% hlutdeild á markaði fyrir smásölu raforku til almennra nota.
Í niðurstöðu eftirlitsins er getið frests sem OR hefur til að selja hlutinn en sú dagsetning er ekki birt, til að gæta trúnaðar.