Opnar kaffihús í gamla vitanum á Garðskaga?
– horfa til ferðamála í nýrri stefnumótun í markaðs- og atvinnumálum
Garðmenn horfa til ferðamála í nýrri stefnumótun í markaðs- og atvinnumálum sem markaðs- og atvinnumálanefnd Sveitarfélagsins Garðs vinnur að. Leitað var til utanaðkomandi aðila og þeir Sigurður Þorsteinsson og Jóhann Ísberg voru fengnir til að taka verkefnið að sér og koma með tillögur til bæjarstjórnar.
Hvað geta Garðmenn gert til að ná árangri? Hvað getur Garðurinn gert fyrir okkur á næstu árum? Hvað viljum við sjá í bænum okkar? Efla sérstöðu Garðsins. Í tillögum Sigurðar og Jóhanns er horft til ferðamála.
Þeir vilja nýta sérstöðu Garðsins í matarmenningu og nýta nýja vitann sem útsýnisstaður. Þeir segja Garðskaga vera paradís sem þarf að nýta betur. Umræða var um sjósund, göngur, stangveiði, köfun, hestaleigu, norðurljósin og fleira.
Ein þeirra hugmynda sem komið hafa fram er að opna kaffihús í gamla vitanum eða inn í bænum.
„Við viljum koma Garðinum á kortið hjá ferðamönnum, við erum byrjuð en það þarf að halda áfram á þessari braut og taka næsta skref, t.d betri aðstöðu fyrir ferðamenn,“ segir í fundargerð Markaðs- og atvinnumálanefndar Sveitarfélagsins Garðs en haldinn verður fundur með hagsmunaaðilum fljótlega.
Sjósund á Garðskaga er hressandi... og stundum ískalt!