Opinn fundur á Ránni með ráðherra um efnahagsmál
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, verður með opinn fund á Ránni í Reykjanesbæ í kvöld, mánudagskvöld, kl. 20:00. Umræðuefni fundarins verður framtíðarsýn í efnahagsmálum og mun Ellert Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sjá um fundarstjórn.
Efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins rennur sitt skeið í lok ágúst á þessu ári og framundan er gerð nýrrar efnahagsáætlunar. Í henni þarf að leggja áherslu á kraftmikinn sjálfbæran hagvöxt, sem dugað getur til að vinna upp það tjón sem varð í hruninu og skapað ný störf fyrir þá sem misst hafa vinnuna. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið stýrir nú gerð áætlunarinnar.
Ráðherra mun jafnframt fjalla um þau atriði sem helst eru á döfinni í efnahagsmálum, eins og gjaldeyrismál, endurreisn fjármálakerfisins og lausn Icesave deilunnar. Að framsögu lokinni taka við umræður og fyrirspurnir.