Opinberir aðilar eigi ekki að standa að fyrirtækjarekstri
S - listi Samfylkingar og óháðra í Sandgerði leggst gegn því að rekstrarformi Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. verði breytt. Það sé ekki hlutverk opinberra aðila að standa í fyrirtækjarekstri á frjálsum fasteignamarkaði, segir í bókun sem S-listinn lagði fyrir á bæjarstjórnarfundi í Sandgerði.
Rætt hefur verið um að skipta Fasteign upp í A og B hluta þannig að þeir eignaraðilar sem hefðu yfir að ráða A-hlutum myndu hafa yfirrráð í Fasteign en B-hlutar væru svokallaðir markaðshlutar, sem væru þá til sölu á markaði. Aðilar í Fasteign gætu breytt A-hlutum í B-hluta ef þeir kysu svo en myndu við það missa yfirráð í Fasteign.
S-listinn vitnar til umsagna um málið þar sem fram kemur að fjölmargir áhættuþættir felist í þessari breytingu fyrir Sandgerðisbæ og því óábyrgt hjá bæjarstjórn að standa að henni.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti hins vegar skráningu Fasteignar hf. á hlutabréfamarkað fyrir hönd Sandgerðisbæjar og vísar í því sambandi í álit og umsagnir sem styðja málið. Minnihlutinn greiddi atkvæði á móti.
Í bókun meirihlutans segir að ekki verði séð að staða sveitarfélagsins verði lakari við skráningu félagsins á hlutabréfa markað nema síður væri. Félög þannig skráð teljist almennt traustari og gagnsæi meira.