Opið inn á gosstöðvar frá Suðurstrandavegi
Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að í dag er opið inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi. Gönguleiðum inn á svæðið verður lokað kl. 18 í dag.
Á meðfylgjandi göngukorti sem hefur verið uppfært má greinilega sjá merkt hættusvæði. Hættusvæðið er bannsvæði samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur. Bannið tekur ekki til viðbragðsaðila og vísindamanna sem þurfa í vísindalegum tilgangi aðgang að svæðinu. Þá getur lögregla veitt fjölmiðlum sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki við öflun frétta og miðlun þeirra undanþágu frá banni.
Lokun gekk vel í gær og engin óhöpp skráð. Þá sýna flestir því skilning að aðgangur inn á gossvæðið er háður takmörkunum. Að mati lögreglustjóra er ekki forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn. Af öryggisástæðum verður gönguleiðum frá Suðurstrandarvegi því lokað daglega kl. 18, eða fyrr eða seinna eftir atvikum, þegar opið er. Sú ákvörðun gildir á meðan gos stendur yfir við fjallið Litla Hrút. Vigdísarvallavegi verður lokað samhliða lokun gönguleiða.
Enn loga gróðureldar á gossvæðinu og óvíst um næstu skref i slökkvistarfi.
Fjallið Litli Hrútur er inn á hættusvæði/bannsvæði. Inn á hættusvæði/bannsvæði er fólk á eigin ábyrgð.
Leið upp að gosstöðvunum er það sem viðbragðsaðilar kalla Meradalaleið. Ganga þarf um 18 km leið fram og til baka. Gönguferðin hentar því alls ekki öllum. Gangan fram og til baka getur tekið 5 til 7 klukkustundir. Aðrar merktar gönguleiðir eru jafnframt opnar. Meradalaleið (leið E) var opnuð daginn eftir að gos hófst. Leiðin liggur til norðausturs frá bílastæði í Stóra Leirdal í átt að útsýnisstað á Hraunsels – Vatnsfelli.
Vakin er athygli á því að gönguleið A er mun erfiðari gönguleið en leið E.
Talinn fjöldi í gær á Meradalaleið: 1.698. Eldri gönguleiðir: 1.330.
Lögreglumenn, landverðir og sjúkraflutningamenn eru á svæðinu í dag. Björgunarsveitir sinna útköllum á svæðinu en verða þar ekki að staðaldri. Erfiðlega hefur gengið að manna vaktir björgunarsveitamanna. Fyrirkomulag eftirlits kallar á ábyrgða hegðun ferðamanna.
Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.
Mælt er með því að fólk noti rykgrímur til að forðast mengun frá gróðureldum. Fólk fer að gosstöðvunum á eigin ábyrgð. Þá er lögð áhersla á að ekki sé farið með börn á svæðið og að fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi ekki að gosinu, eða þungaðar konur. Það er vegna hugsanlegrar gasmengunar en einnig vegna reyksins frá gróðureldum. Þá er gangan löng og reynist mörgum erfið.
Göngumenn klæði sig eftir veðri, taki með sér nesti og gleymi ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Ekki er tryggt öryggi farsíma á svæðinu.
Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.
Þeir gangi að gosstöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nestaðir. Fylgist með vindátt og fréttaflutningi.
Sjá jafnframt upplýsingar á https://safetravel.is/ https://www.almannavarnir.is/ https://www.vedur.is/ https://www.visitreykjanes.is/en https://loftgaedi.is/loftgaedi.is
Akstur utan vega er bannaður.
Ferðamenn fari að fyrirmælum viðbragðsaðila. Fjöllin Litli Hrútur og Keilir eru inn á merktu hættusvæði/bannsvæði.
Spá veðurvaktar um gasdreifingu: Hægviðri framan af degi og gasmengun verður því mest nærri upptökunum, en vaxandi suðaustanátt í kvöld blæs gasmengun yfir vestanvert Reykjanes.
Spá gerð: 24.07.2023 22:56. Gildir til: 25.07.2023 23:59.