Opið hús hjá Skotdeild Keflavíkur
Skotdeild Keflavíkur býður í opið hús í dag kl. 17 og mun Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sjá um formlega opnun húsnæðisins.
Skotdeildin er mjög stolt af samstarfi þeirra og Reykjanesbæjar á Sunnubrautinni og hafa þeir nýlega fjárfest í rafrænum skotmörkum sem verður bylting fyrir deildina og starfsemi hennar.
Æft hefur verið stíft undanfarið hjá skotdeildinni en þó hefur engin formleg opnun átt sér stað fyrr en nú. Skotdeildin er einnig afar stolt af því að geta boðið upp á fríar æfingar fyrir unglinga eða frí æfingagjöld en deildin sér um að borga skot og skífur. Einnig hafa þau pantað fleiri loftriffla og loftskammbyssur sem unglingar geta haft aðgang að á æfingatímum með æfingastjóra. Þau stefna að því um ókomna tíð að hafa æfingagjöldin ókeypis.
Húsnæði Skotdeildar Keflavíkur er staðsett á Sunnubrautinni (Vatnaveröld) og munu þau kynna allar helstu skotgreinar sínar í dag ásamt því að farið verður yfir unglingastarfsemina sem deildin er með í gangi og hægt verður að skrá sig á staðnum fyrir þá sem vilja æfa í haust.