Opið hús hjá Netagerðardeild FS
Sunnudaginn 17. apríl var opið hús hjá Netagerðardeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem tilraunatankur fyrir veiðarfæri og veiðarfæralíkön voru sýnd. Mikið af gestum kom og skoðaði það sem í boði var og sýnir það hvað menn eru áhugasamir um þessi mál. Að þessu stóðu Netaverkstæði Suðurnesja, Veiðarfæraþjónustan í Grindavík og 3S Tæknilausnir ehf. ásamt FS.
Kynntar voru nýjungar í gerð dragnóta frá NS og VG. Þarna er um að ræða tveggja og fjögurra byrða dragnætur sem eru skornar og felldar með nýju sniði til að auka rúmmál þeirra. Gestir sýndu þessu mikinn áhuga og seldust þarna voðir sem verða settar upp á næstunni. Þá var VG með aðra nýja framleiðslu sem nefnist nýaldartroll með plötuhopperum (ný tegund af rokkhopperum) og hentar fyrir minni trollbáta en trollið hefur mikla opnun en lítið netmagn miðað við rúmmál. Þarna er á ferðinni ný tækni við snið netanna í trollinu. Einnig sýndi FS nýja útfærslu af gulltoppi með plötuhopperum, þvernetspoka, norskan poka með leggglugga og lítið líkan af gloríutrolli. Sjálfvirkar nálavélar frá 3S Tæknilausnum voru sýndar og vöktu mikla athygli, en um 20% af tíma netagerðarmanna fer í að fylla eða rekja í nálar og við það að vélvæða þessa vinnu verður hagræðing í rekstri netaverkstæða.
Þessi sýning er gott dæmi um samstarf skóla og atvinnulífs, atvinnufyrirtækin þróa þarna framleiðslu sína og um leið verður til gagnabanki sem kemur skólanum til góða við gerð kennsluefnis. Mörg fyrirtæki í útvegs- og veiðarfærageiranum hafa stutt smíði tilraunatanksins með fjárframlögum og fá þau kærar þakkir fyrir en nöfn þeirra verða nefnd seinna á opinberum vettvangi.
Mynd: www.fss.is - Þar er hægt að sjá fleiri myndir frá opnu húsi Netagerðardeildarinnar.