Óperuhátíð í Reykjanesbæ í ágúst
Í kjölfar óperuhátíðar sem haldin var í Reykjanesbæ í fyrra og gekk framar vonum hefur verið ákveðið að halda áfram þar sem frá var horfið. Norðuróp hefur nú kallað til hóp söngvara, hljóðfæraleikara og ballettdansara en sett verður upp rússneska óperan Eugen Onegin eftir Tschaikowsky. Þó óperan sé rússnesk þá verður hún sungin á íslensku en Þorsteinn Gylfason þýddi hana árið 1984.
Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari, er í forsvari fyrir óperuhátíðinni. Hann segir þessa óperu vera rómantíska og eins og í flestum óperum þá sé þarna framið morð.
Óperan verður sett upp í Stapanum og verður m.a. notast við þann hluta byggingarinnar sem er hálfbyggður og þar settar upp útisenur. Þá flyst sýningin úr hálfbyggðu húsi og inn í aðalsalinn, þar sem munu dansa ballerínur.
Hópurinn sem tekur þátt í verkefninu í ár er mun stærri en í fyrra. Á meðal söngvara í stórum hlutverkum eru Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Jóhann Smári Sævarsson í aðalhlutverki. Viðar Gunnarsson kemur inn í sýninguna eftir 30 ára feril í Evrópu. Rósalind Gísladóttir úr Grindavík mun syngja í sýningunni, Bragi Jónsson frá Sandgerði og Dagný Jónsdóttir.
Kór sýningarinnar verður í grunninn félagar úr kór Íslensku óperunnar og úr kórum af Suðurnesjum en ef söngvarar af Suðurnesjum vilja taka þátt í söngnum eða hátíðinni að öðru leiti þá geta þeir haft samband við Jóhann Smára í 421 7607 eða 841 9279 eða senda póst á [email protected].
Jóhann Smári segir að reynt sé að hafa eins mikið af söngfólki frá Suðurnesjum og hægt er. Þá verður BRYN Ballett Akademían og Listdansskóli Reykjanesbæjar með dansara í sýningunni og mun Bryndís Einarsdóttir verða listrænn stjórnandi í dansinum.
Óperan verður frumsýnd 17. ágúst. Stefnt er á að sýningarnar verði þrjár og endi svo á óperuballi þann 25. ágúst í Stapa. Þar verður galakvöldverður og allir í sínu fínasta pússi.