Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ónýtt drasl skilið eftir við Fjölsmiðjuna
Þriðjudagur 21. júlí 2015 kl. 10:52

Ónýtt drasl skilið eftir við Fjölsmiðjuna

-Fjölsmiðjan er nytjamarkaður en ekki ruslahaugur

Starfsfólk Fjölsmiðjunnar að Iðavöllum í Reykjanesbæ hefur ítrekað þurft að henda ónýtu drasli sem fólk hefur skilið þar eftir fyrir utan, eftir lokunartíma Fjölsmiðjunnar. Fjölsmiðjan er nytjamarkaður en ekki ruslahaugur og er starfsfólk þar orðið langþreytt á ástandinu. Fjölsmiðjan birti nýverið mynd á Facebook síðu sinni af ónýtu drasli sem skilið var eftir fyrir utan húsnæði smiðjunnar.

„Við eigum mjög gott samstarf við Kölku, erum þar með nytjagám sem fólk getur sett nýtanlega hluti í og gefið okkur en þegar svona gerist og við þurfum að koma aftur og aftur með ónýta hluti og drasl, þá getur það sett það samstarf í uppnám. Þeir eru auðvitað ekki ánægðir þegar við komum ítrekað með fulla bíla af drasli sem við þurfum að henda. Þeir hafa sýnt okkur mikinn skilning og ekki rukkað okkur fyrir að henda en ég skil það vel að þeir séu ekki sáttir þegar þetta gerist svona oft,“ segir Þorvarður Guðmundsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Iðavöllum í samtali við Víkurfréttir. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorvarður sagði að Fjölsmiðjan lifði á gjöfum frá fólki út í bæ og þeir væru endalaust þakklátir fyrir allar þær góðu gjafir sem þeir fá og hafa fengið í gegnum tíðina. „Hins vegar er það mjög hvimleitt þegar fólk skilur eftir ónýtt drasl fyrir utan hjá okkur sem við þurfum svo að eyða tíma í að henda á haugana. Þetta gerist bara því miður alltof oft. Við erum nytjamarkaður en ekki ruslahaugur og ég vil biðja fólk um að virða það.

„Fólk hefur skilið eftir hluti hér fyrir utan yfir helgi sem hefur svo skemmst vegna til dæmis rigningar og við þurft að henda þessum hlutum. Þetta lýsir bara svo skammri hugsun að gera þetta með þessum hætti því að þetta nýtist okkur ekki neitt og getur skemmt það góða samstarf sem við eigum við Kölku.“ Þess má geta að Fjölsmiðjan er opin alla virka daga frá klukkan 10-15 nema fimmtudaga, þá er opið frá klukkan 10-18. 

Þorvarður Guðmundsson er forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Iðavöllum