Önnur kannabisræktun stöðvuð
Á annan tug kannabisplantna í heimahúsi
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði kannabisræktun á heimili í umdæminu í fyrradag. Farið var í húsleit að fengnum dómsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Á heimilinu fundust á annan tug kannabisplantna. Húsráðandi, kona á þrítugsaldri, viðurkenndi að hún ætti og hefði ræktað plönturnar. Tvö álíka mál hafa þegar komið upp það sem af er ári á Suðurnesjum.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.