Ómetanlegt að búa á Reykjanesinu og starfa að alþjóðlegum verkefnum
Ráðgjafafyrirtækið Skref fyrir Skref ehf. í Sandgerði hlaut á dögunum tvo styrki til alþjóðlegra verkefna, samtals að upphæð um 33 milljónir. Annar styrkurinn er frá Erasmus Plus, samstarfsáætlun Evrópusambandsins og hinn frá NordPlus.
Skref fyrir skref ehf. hefur unnið að hönnun, þróun og kennslu námskeiða síðastliðin 25 ár í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki hér á landi sem og erlendis. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í óhefðbundnum og áhugaverðum aðferðum við kennslu og þjálfun fullorðinna á vinnumarkaði. Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið starfað með aðilum í ferðaþjónustu við að þróa efni og aðferðir sem henta sérstaklega við þjálfun innan fyrirtækja í ferðaþjónustu. Hansína B. Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Skref fyrir skref, segir það ómetanlegt að búa á Reykjanesinu og starfa að alþjóðlegum verkefnum. „Gestir okkar njóta forréttinda þegar þeir koma hingað á fundi; í stórkostlega náttúru, dvelja í miðjum Geoparki og njóta gestrisni heimamanna en við fáum öflugan stuðning frá sveitarfélaginu og samfélaginu öllu,“ segir hún.
NordPlus úthlutaði styrk á dögunum til Skref fyrir skref að upphæð 51.708 evrur, eða 6,7 milljónir íslenskra króna. Stykurinn er til að stýra 16 mánaða þróunarverkefni undir nafninu „Tools 4 Trainers“ þar sem unnið er að því að þróa áhugaverðar og einfaldar leiðir til þess að þjálfa frumkvöðla og eigendur smærri ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni. Verkefninu er stýrt af Skref fyrir Skref en samstarfsaðilar eru í Eistlandi, Lettlandi, Lithaen og Finnlandi. Fulltrúar þeirra komu til landsins þegar verkefnið var formlega sett af stað á Sandgerðisdögum nú nýlega.
Styrkurinn frá Erasmus Plus er að upphæð 203.313 evrur eða um 26,3 milljónir íslenskra króna og fer hann í verkefni í samstarfi við aðila í Tékklandi, Póllandi, Litháen, Eistlandi og á Tenerife. Markmið með verkefninu er að nota óhefðbundnar aðferðir við að þjálfa aðila í ferðaþjónustu til þess að hanna eigin húsbók eða „Book of Business“ í þeim tilgangi að stytta þjálfunartíma innan fyrirtækjanna en auka um leið stöðugleika og gæði. Verkefnið er til tveggja ára og verða sett upp tilraunaverkefni með ferðaþjónustuaðilum í hverju landi. Niðurstöður og reynslusögur verða birtar á netinu meðan á verkefninu stendur. Samstarfsaðilarnir koma hingað til lands í byrjun október næstkomandi og fer verkefnið þá formlega af stað í Sandgerði.