Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 29. október 2001 kl. 11:12

Ómar fékk milljón hjá Þorsteini Joð

"Ég er stoltastur af því að hafa hætt þegar milljónin var komin. Hefði ég hins vegar tekið ákvörðun um að halda áfram og giska á síðustu spurninguna hefði ég, ef ég þekki sjálfan mig rétt, allt eins getað breytt um á síðustu stundu og sagt eitthvað annað en léttvopnaður riddari". Suðurnesjamaðurinn Ómar Jóhannsson setti nýtt met í sjónvarpsþættinum Viltu vinna milljón á Stöð 2 í gærkvöldi.

"Hins vegar hefði ég ekki sagt mávur því þá þekki ég alla," sagði Ómar Jóhannsson í viðtali við visir.is

Ómar segist ekki ætla að "þræta fyrir" að hann hafi haft óskaplega gaman af því að fá að taka þátt í leiknum. "Ég er sófanörd eins og aðrir sem svara spurningum fyrir framan sjónvarpið heima í stofu. En þegar þú situr á móti Þorsteini í stólnum er þetta öðruvísi. Reyndar fannst mér óvæntast að ég skyldi yfirhöfuð komast í stólinn," sagði Ómar sem var fyrstur þátttakenda til að raða vísindamönnum í rétta röð.

"Það er ýmislegt sem fer í gegnum hugann þegar maður er þarna. Tónlistin er gífurlega áhrifamikil. Samt áttaði ég mig ekki á því fyrr en eftir á."

Ómar er fæddur á Seyðisfirði. 9 ára flutti hann í Garðinn. "Ég er Suðurnesjamaður en flutti til Reykjavíkur fyrir tíu árum," segir þessi rólyndi maður sem rekur myndbandaleigu á Njálsgötunni. En hvað var Ómar að hugsa þegar milljónarspurningin kom og velja átti á milli fjögurra rithöfunda um hver hefði verið fyrsta konan til að hljóta bókmenntaverðlaun Nóbels? "Ég vissi að Selma Lagerlöf hafði fengið nóbelsverðlaunin en hvort hinar höfðu gert það líka vissi ég ekki. Ég tók því áhættuna. En þegar 5 milljóna króna spurningin kom hafði ég ekki hugmynd um hvert var rétta svarið. Það var því best að hætta," sagði Ómar Jóhannsson. Hann segist ekki búinn að ákveða hvernig hann ráðstafi milljóninni. "Það kemur bara í ljós."


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024