Ölvaður ók yfir sjálfan sig eftir eftirför lögreglu og árekstur við lögreglubíl
Í morgun kl. 06:32 barst lögreglunni í Keflavík ábending um að ökumaður bifreiðar væri hugsanlega ölvaður við akstur í Sandgerði. Lögregla fór á staðinn og veittu lögreglumenn bifreiðinni athygli þar sem henni var ekið eftir Bjarmalandi í Sandgerði. Ökumaðurinn stöðvaði við hús eitt og hugðust lögreglumenn ræða þar við ökumanninn til að kanna ástand hans. Í stað þess að ræða við lögreglumenn ók ökumaðurinn af stað. Einn farþegi var í bifreiðinni. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók hann greitt og ógætilega um götur Sandgerðis uns hann ók út úr bænum sem leið lá eftir Sandgerðisvegi áleiðis að Rósaselstorgi. Lítil umferð hafði verið í Sandgerði. Bifreiðinni var ekið mjög greitt eftir Sandgerðisvegi, í gegnum Rósaselstorg og inn á Reykjanesbraut áleiðis til Reykjavíkur. Á Reykjanesbraut ofan við Njarðvík, þar sem umferð var nokkur, komst ein lögreglubifreiðin framúr bifreiðinni til að reyna að stöðva hana. Við það missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni og ók útaf. Hann komst aftur upp á veginn og ók þá á eina lögreglubifreiðina. Bifreiðinni var þá ekið aftur til baka í Sandgerði. Í Sandgerði, bakvið Skinnfisk, var bifreiðinni ekið á síló. Rétt áður en bifreiðin lenti á sílóinu stökk ökumaðurinn út úr bifreiðinni. Ökumaðurinn klemmdist á milli einnar uppistöðusúlu sílósins og vinstra afturhorns bifreiðarinnar. Að auki hafnaði vinstra afturhjól bifreiðarinnar ofan á fótleggjum ökumannsins.
Sjúkrabifreið flutti ökumanninn, sem er grunaður um ölvun við akstur, á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Meiðsl hans voru minniháttar. Eftir skoðun hjá lækni var brotamaðurinn færður í fangageymslu þar sem hann verður yfirheyrður þegar víman rennur af honum. Auk þess að vera grunaður um ölvun við akstur var ökumaðurinn að aka sviptur ökuleyfi. Bifreið brotamannsins var óökufær eftir aksturinn og umferðaróhappið og var hún fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Nokkuð tjón varð á lögreglubifreiðinni sem brotamaðurinn ók á.
Sjúkrabifreið flutti ökumanninn, sem er grunaður um ölvun við akstur, á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Meiðsl hans voru minniháttar. Eftir skoðun hjá lækni var brotamaðurinn færður í fangageymslu þar sem hann verður yfirheyrður þegar víman rennur af honum. Auk þess að vera grunaður um ölvun við akstur var ökumaðurinn að aka sviptur ökuleyfi. Bifreið brotamannsins var óökufær eftir aksturinn og umferðaróhappið og var hún fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Nokkuð tjón varð á lögreglubifreiðinni sem brotamaðurinn ók á.