Ölvaðir fylla fangageymslur
Síðasta helgi var fremur annasöm hjá lögreglunni í Keflavík en þrír einstaklingar, sem vitað er um, gerðu það að leik sínum að drekka frá sér allt vit og aka síðan af stað út í nóttina. Hið ökuglaða tríó var vistað í fangaklefum lögreglunnar í Keflavík og látið sofa þar úr sér vímuna þar til það varð yfirheyrsluhæft.Um fjögurleytið á aðfaranótt sunndags, Júróvisjón-nóttina eftirminnilegu, var tilkynnt um að bifreið, sem stóð utan við Casino, hefði verið stolið en hún var ólæst og bíllyklarnir höfðu verið skildir eftir í kveikjulásnum. Skarpskyggnir vegfarendur komu auga á bílþjófinn, þegar hann var á rúntinum á Hafnargötunni, og létu lögregluna vita. Bifreiðin fannst skömmu síðar, gereyðilögð rétt utan við Hafnir og bílþjófurinn fáum metrum í burtu. Hann var mjög ölvaður og óviðræðuhæfur og því geymdur í fangaklefa og yfirheyrður næsta dag. Bifreiðin var fjarlægð af veginum með dráttarbíl.Klukkustund síðar stöðvaði lögreglan 17 ára gamlan pilt á Heiðarbrautinni í Keflavík, en hann var ölvaður og ökuréttindalaus. Drengurinn var mjög æstur og ósamvinnufús þegar lögreglumenn reyndu að ræða við hann og því vistaður í fangaklefa. Þessi sami piltur var handtekinn fyrir fáum vikum síðan, fyrir ölvun við akstur, og var þá sviptur rétti til að öðlast ökuréttindi. Sum brennd börn læra seint að forðast eldinn.Rétt fyrir klukkan sex, á sunnudagsmorgun, var tilkynnt um unga stúlku sem æki ölvuð frá íbúðarhverfi í Grindavík og stefndi austur Grindavíkurveg. Lögreglumenn stöðvuðu stúlkuna á móts við Seltjörn og færðu hana á lögreglustöðina í Keflavík. Þar var tekin úr henni blóðprufa, eins og venja er, en hún óskaði síðan eftir gistingu í fangaklefa, sem þykir nú harla óvenjulegt. Stúlkan fékk ósk sína uppfyllta.