Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 31. janúar 2002 kl. 09:28

Olsen-bræður og Lars von Trier meðal viðskiptavina

Sveinn Ólafur Magnússon, 26 ára og Erla Guðmundsdóttir, 23 ára, hafa búið í Kaupmannahöfn síðustu þrjú og hálfa árið. Erla nemur guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla en Sveinn vinnur sem verslunarstjóri hjá Magasin du Nord í Lyngby.Kristlaug María Sigurðardóttir fór og hitti þau að máli þegar þau voru stödd hér í jólafríi fyrir skemmstu til að forvitnast um það hvernig ungur Keflvíkingur verður verslunarstjóri í búð sem tilheyrir einni fínustu og dýrustu verslunum Danmerkur og hvort guðfræðingar verði alltaf prestar.

Verslunarstjóri hjá Magasin du Nord
Sveinn byrjaði að vinna í Magasin du Nord í mars 1999 og hefur gengið mjög vel í versluninnni og fékk fljótlega stöðuhækkun og var gerður að framleiðslustjóra og nú nýverið var hann svo aftur hækkaður í tign innan fyrirtækisins og er nú orðinn verslunarstjóri yfir búðinni í Lyngby.„Þetta er frekar lítil búð, svona eins og kaupmaðurinn á horninu og heitir „Mad og vin“ og ég sé um allar matvörurnar“, segir Sveinn.

Hjólar í skólann
Erla og Sveinn búa í námsmannaíbúð á Kagsaa kollegíinu við Lyngby skammt frá þar sem Sveinn vinnur. Erla er hins vegar í skólanum í miðborg Kaupmannahafnar og hjólar í 45 mínútur hvora leið á dag, hún hefur áhuga á því að lesa til vígslu og verða prestur þegar hún útskrifast úr guðfræðinni. Magasin Du Nord keðjan, sem Sveinn vinnur hjá, á tólf búðir og þessi er ein af þeim. Sveinn er kjötiðnaðarmaður að mennt og er meistari í Danmörku, en ef hann kæmi heim þá yrði hann að setjast á skólabekk og taka meistarapróf, eins og iðnaðarmenn þurfa að gera hér á landi. Það vinna 500 manns hjá allri keðjunni en Sveinn er með 30 manns undir sinni stjórn í versluninni. Hann kallar þetta nauðsynjavörubúð en kannski ekki eins og Nettó sem er lágvöruverðs verslun, heldur er Magasin með betri nausynjavörur. Verslunin er með sína eigin mjólk og ýmsar aðrar vörur til að tryggja besta hráefnið.

Frægir viðskiptavinir
Olsen bræðurnir víðfrægu versla hjá Sveini sem og annað fyrirfólk Kaupmannahafnar, Lars von Trier, Anders Lund Madsen og fullt af fréttafólki sem býr í Lyngby. Margrét Þórhildur Danadrottning kemur ekki sjálf að versla í litlu búðinni, heldur sendir pantanir og fær matvöruna senda heim í Amalienborgarhöll um hæl.

Ekki á leið heim strax
„Við verðum sennilega þrjú ár í viðbót úti í Danmörku, en mig langar til að kynnast kirkjunni heima meira með náminu. Ég er búin að vera í sjálfboðavinnu hjá íslenska söfnuðinum í Jónshúsi en það er bara svo lítill söfnuður. Framtíðin hjá mér er að starfa sem prestur hér á landi, segir Erla. Blaðamaður velti því þá fyrir sér hvort Sveinn verði þá ekki að stofna nýlenduvöruverslun hér þar sem gæðin eru sett ofar öðru. „Það er minn draumur að eignast litla slátrarabúð sjálfur, en ég á erfitt með að sjá mig opna hana hérna í Keflavík, því markaðurinn er ekki alveg fyrir hendi, en það væri kannski hægt í Reykjavík, en varla samt því fólk er orðið svo vant því að versla í stórmörkuðum og verslanamiðstöðvum“, segir Sveinn að lokum og brosir við tilhugsunina um litlu slátrarabúðina sína.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024